136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

náms- og starfsráðgjafar.

422. mál
[17:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga frá hv. menntamálanefnd um náms- og starfsráðgjafa. Ég vil fagna frumvarpinu því nú er verið að gera tilraun til að lögvernda starfsheitið náms- og starfsráðgjafi og er þá komin lögverndun á flest þau störf sem innan skólakerfisins eru.

Í 1. gr. er tilgreint að sá hafi heimild til að kalla sig náms- og starfsráðgjafa og fá lögverndun á það heiti sem hlotið hefur viðurkenningu menntamálaráðuneytisins, hafi hann útskrifast úr háskóla. Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að benda á 4. gr. þar sem talað er um að þeir sem stunda það í dag að vera náms- og starfsráðgjafar, en hafa ekki lokið prófi frá háskóla eða af öðru skólastigi, munu geta sótt um leyfisveitingu fyrir því starfsheiti, náms- og starfsráðgjafi, og er það í samræmi við það þegar Kennaraskóla Íslands var breytt í Kennaraháskóla Íslands að þá giltu prófin sem fyrir voru og slíkt hið sama er gert hér.

Þegar illa árar í samfélaginu sækir oft óöryggi á börn og unglinga og þá skiptir afar miklu máli, og kannski ekki síst í því árferði sem nú er, að grunn- og framhaldsskólarnir hafi á að skipa fagmenntuðu fólki til að veita nemendum alla þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda, leiðbeina þeim í námi og því að horfa til framtíðar með hagsmuni sína í huga og ekki síst að styðja þá í því starfi sem þeir eru í, því að nemendur eru í námi og nám er vinna. Það skiptir líka máli, hæstv. forseti, að úti í atvinnulífinu veiti hæfir einstaklingar ráðgjöf, eins og málum er háttað í dag sem og alltaf. Það skiptir alltaf máli að fagfólk ráði öðrum heilt.

Ég fagna því að hv. menntamálanefnd skuli samhljóða koma fram með þetta frumvarp. Ég vænti þess að hv. alþingismenn styðji frumvarpið, styðji það að við lögverndum starfsheitið náms- og starfsráðgjafi með gæði þjónustunnar og heill þeirra sem hennar munu njóta að leiðarljósi. Það er þannig um flestar aðrar stéttir, enginn getur stundað lögmennsku nema sá sem hefur lokið slíku prófi, enginn getur stundað tannlækningar nema sá sem hefur lokið slíku prófi, enginn getur verið viðskiptafræðingur nema sá sem hefur lokið slíku prófi og þannig mætti lengi telja. Ég legg til, hæstv. forseti, að við verndum þetta starfsheiti ekki síður en önnur og fagna frumvarpinu sem hér er lagt fram.