136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

kostnaður við stjórnlagaþing.

[13:34]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þær tölur sem hv. þingmaður vísaði til voru lagðar fram á fundi sérnefndar um stjórnarskrána í gærmorgun og gott að fá þær upplýsingar fram. Hins vegar verður að halda til haga í umræðunni, virðulegi forseti, að málið er nú til meðferðar í stjórnarskrárnefnd sem á eftir að afgreiða það. Hver hinn endanlegi kostnaður verður mun alfarið ráðast af því hvernig næsta þing afgreiðir lög um stjórnlagaþingið og útfærir það. Þar mun kostnaðurinn alfarið ráðast en hann er, eins og hv. þingmaður benti á, nefndur á bilinu 1,1 milljarður til 2,1 milljarður þannig að verulegur munur er þar á.

Ég hlýt að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson, sem beinir fyrirspurn til mín, á móti: Hefði einhverju breytt hver þessi tala væri varðandi afstöðu þingmannsins til að setja á fót stjórnlagaþing? Ég held að það skipti miklu máli í umræðunni að hv. þingmaður upplýsi um hvort þessar tölur breyti afstöðu hans til stjórnlagaþings og einnig hvort hv. þingmaður, sem ég tel líklegt að verði á næsta þingi miðað við niðurstöður prófkjörs, muni þá beita sér fyrir því að stjórnlagaþingið sitji skemur eða verði sett upp á annan hátt en gert er ráð fyrir í fylgiskjali með stjórnarskrárfrumvarpinu sem hér liggur fyrir og er til meðferðar í stjórnarskrárnefnd.