136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

kostnaður við stjórnlagaþing.

[13:36]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það kemur ekki alveg á óvart að hv. þingmaður eða hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins komi hér upp og vilji ræða þetta mál því þegar álitinu var dreift í nefndinni varð ég vör við að glampi kom í augun á þeim og þeim þótti sennilegt að þarna væri komið gott vopn til að nota í baráttunni gegn stjórnlagaþinginu. En það sem ég vil segja er að í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram, með leyfi forseta:

„Erfitt er að meta kostnað við stjórnlagaþingið með nákvæmni.“

Þær tölur sem hér eru á blaði eru að miklu leyti getgátur enda geta þær ekki verið neitt annað á meðan ekki hefur verið ákveðið hversu lengi þingið skal starfa og hvort það mun starfa í áföngum o.s.frv. En ég tel nokkuð ólíklegt að það starfi jafnlengi og svigrúmið í frumvarpinu er.

Við skulum hafa í huga að stjórnarskráin á að setja valdinu mörk og það er hreint ekki svo lítið hlutverk og skiptir ekki litlu máli að þessi mörk liggi fyrir og nokkuð góð sátt sé í þjóðfélaginu um hver þau eru. Það var mjög ánægjulegt að sitja nefndarfund í sérnefndinni í morgun þar sem við fengum góða gesti og mikil umræða fór fram um stjórnlagaþingið. Þar kom líka fram að mikilvægt væri að fólkið í landinu kæmi að málum og þess vegna þyrfti upplýsingagjöfin til þjóðarinnar að vera mikil á þeim tíma sem stjórnlagaþing væri að störfum. Ég tek undir það.

Við skulum líka hafa í huga að kostnaður við rekstur Alþingis er alls um 2 milljarðar á ári þannig að þetta eru háar upphæðir sem fjármálaráðuneytið dregur fram en ég endurtek (Forseti hringir.) að það segir að mjög erfitt sé að meta þennan kostnað miðað við litlar upplýsingar um stjórnlagaþingið.