136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

kostnaður við stjórnlagaþing.

[13:38]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég verð að segja að mér þykir þetta nokkuð hátt metið hjá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og kannski teygt upp í það hæsta sem til greina kemur. Út úr því koma nokkuð háar tölur. Ég átel ekki skrifstofuna fyrir það því forsendurnar eru mjög óljósar eins og þær eru núna. Hlutverk nefndarinnar er að lýsa og skýra þær forsendur.

Að öðru leyti hvarflar hugurinn til miðrar 19. aldar. Þá var bágt ástand í landinu, hnípin þjóð í vanda, en fram voru komnar hugmyndir um að reisa íslenskt samfélag við með því að koma á ráðgjafarþingi og deilt var um hvort það ætti að vera í Reykjavík eða á Þingvöllum. Við höldum nú að þjóðin hafi slegið sér eindregið saman og fylkt liði um þá hugmynd, svipað og um lágmyndina af Jóni Sigurðssyni, að ryðja veginn upp að Austurvelli og öll þjóðin horft á, en það var ekki svo. Þá sögðu ýmsir hv. bændur og búalið í stíl hv. þm. Birgis Ármannssonar: Er þetta ráð? Við þetta er mikill kostnaður. Ekki er að vita hvað úr þessu verður. Hvaða gagn er að þessu? Eigum við ekki að bíða aðeins og sjá til og leyfa Danskinum að stjórna áfram?

Þannig hefur það verið, forseti, um hverja nýjung, um hverja reisn í stjórnkerfinu að þar hafa komið fram menn eins og hv. þm. Birgir Ármannsson og spurt þessarar góðu spurningar: Já, en kostnaðurinn, forseti, kostnaðurinn, góðir landsmenn, hann er svo mikill að við höfum ekki efni á þessu. Ef hv. þm. Birgir Ármannsson hefði hér eilíflega ráðið hlutunum værum við enn í sporum ofanverðrar 19. aldar, þinglaus, stjórnkerfislaus, (Forseti hringir.) hæstaréttarlaus og atvinnuvegalaus, (Forseti hringir.) vegna þess að kostnaðurinn hefði verið svo (Forseti hringir.) óumflýjanlegur og óyfirstíganlegur.