136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

kostnaður við stjórnlagaþing.

[13:52]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir að það sé holur hljómur í málflutningi okkar sjálfstæðismanna í þessu máli eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir heldur fram. Við erum að benda á að ríkissjóður er nú rekinn með 150 milljarða kr. halla. og því er ljóst að skera þarf niður í ríkisrekstrinum til að endar nái saman. Á sama tíma leggur Framsóknarflokkurinn og ríkisstjórnin til að stofnað verði nýtt þing á Íslandi til hliðar við það sem fyrir er með kostnaði upp á 2 milljarða kr. Einhvers staðar verður að taka þá peninga.

Mér hefur þótt þessi stjórnlagaþingshugmynd nokkuð sérstök, sérstaklega í ljósi þess að við sitjum á stjórnlagaþingi. Hér eru breytingar á stjórnskipunarlögum fluttar, þær eru ræddar og samþykktar eða synjað. Við höfum stjórnlagaþing. Að ætla sér að stofna til nýs stjórnlagaþings með kostnaði upp á 2.000 millj. kr. til hliðar við það sem fyrir er er því ákaflega sérstakt.

Hins vegar er það ómerkilegur málflutningur og verið að slá ryki í augu fólks þegar því er haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki missa einhver völd. Á þessu stjórnlagaþingi munu alls ekki sitja fulltrúar einhverra sjónarmiða eða stjórnmálaflokka. Þetta verði fulltrúaþing og það verði kosið til þess. Ég efast nú ekki um að Framsóknarflokkurinn m.a. muni tilnefna sína menn til setu á stjórnlagaþingi til þess að koma fram þeim sjónarmiðum sem þeir vilja berjast fyrir varðandi breytingar (Forseti hringir.) á stjórnarskránni. Allt er þetta með miklum ólíkindum og (Forseti hringir.) fólk hlýtur að fara að sjá í gegnum málflutninginn sem viðhafður er í þessu máli.