136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

kostnaður við stjórnlagaþing.

[13:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna hér. Í fyrsta lagi tek ég undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni vannst ekki tími til að svara þeim spurningum sem ég beindi til hans hér í upphafi og vona ég að hann fái tækifæri til þess síðar.

Í öðru lagi vil ég benda á eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins erum mjög opnir fyrir hugmyndum um breytingar á því ákvæði stjórnarskrárinnar sem lýtur að breytingum á stjórnarskrá, m.a. með því að koma þjóðaratkvæðagreiðslum inn í það ferli. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefndinni sem sat 2005–2007 samþykktum ákveðna útfærslu í þeim efnum. Sú útfærsla sem lögð er fram í þessu frumvarpi er allt annars eðlis, er eiginlega bara bútur úr þeirri tillögu sem þá var lögð fram, en við höfum verið tilbúnir til að ræða það.

Varðandi stjórnlagaþing sem slíkt höfum við sjálfstæðismenn bent á ýmsa annmarka á þeim tillögum sem hér liggja frammi. Kostnaðurinn er eitt af þeim atriðum sem við höfum vakið athygli á í því sambandi en alls ekki það eina. Annað atriði sem vekur verulegar spurningar er það að í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er annars vegar gert ráð fyrir þremur efnislegum breytingum á stjórnarskránni og hins vegar er lagt til að sett verði á fót stjórnlagaþing sem hafi það hlutverk, örfáum mánuðum eftir stjórnarskrárbreytingu í vor, að fara í heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Þetta er auðvitað gríðarleg mótsögn sem erfitt er að átta sig á. Kannski er erfiðast að átta sig á því þegar gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að sett verði ný regla um það hvernig breyta á stjórnarskrá og svo, fáum mánuðum síðar, er sett á fót stjórnlagaþing sem á að breyta stjórnarskrá eftir annarri aðferð. Og þá spyr maður: Hvað liggur á að setja inn (Forseti hringir.) ákvæði um hvernig breyta á stjórnarskrá (Forseti hringir.) örfáum mánuðum fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrár? (Forseti hringir.) Hvað er eiginlega verið að fara? Er þetta bara ekki hrein vitleysa?