136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

þingmál um veiðar á hrefnu og langreyði.

[14:09]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér þykir það fráleitt að tillöguflytjandi sé ekki áhugamaður um að málið komist á dagskrá en það eru hins vegar aðrir, hv. þm. Birgir Ármannsson og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sem finnur það að vísu að málinu að það varði ekki efnahag landsins og gengi þjóðarinnar. Ég held hins vegar að þetta mál geri það. Þær upplýsingar sem hafa borist um viðbrögð við ákvörðuninni um veiðar á hrefnu og langreyði eru einmitt þannig að þær varða efnahag þjóðarinnar, orðstír hennar og framtíð Íslands, bæði til skamms tíma og langs. Siv Friðleifsdóttur til upplýsingar og Framsóknarflokknum yfir höfuð, þá varðar ákvörðunin um veiðar á hrefnu og langreyði mjög álit okkar á því hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki en skoðun á því er mjög ofarlega á stefnuskrá Framsóknarflokksins.

Þetta mál varðar líka hag ferðaiðnaðarins, hag fisksölunnar og almennan hag Íslendinga sem skiptir okkur mjög miklu máli um þessar mundir. Ég fagna þeim yfirlýsingum sem koma frá þingmönnum og legg til við forseta að þetta mál verði sett á dagskrá sem 18. mál, eða kannski frekar núna strax á eftir til að við getum rætt þetta mikla áhugamál mitt og hv. þingmanna Sivjar Friðleifsdóttur og Birgis Ármannssonar.