136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

þingmál um veiðar á hrefnu og langreyði.

[14:11]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki að það standi eftir í umræðunni að ég telji hvalveiðar ekki skipta máli fyrir efnahag landsins. Ég tel að þær geri það og ég held að allir sem að tillögunni standa telji að hvalveiðar skipti máli. Þær munu líklega skapa hundruð starfa, þannig að það komist vel til skila.

Ég vil taka fram að forseti tók vel í aðra tillögu sem kom fram á sínum tíma. Það er tillaga sem sú er hér stendur er 1. flutningsmaður að og gengur út á Kyoto-bókunina og íslenska ákvæðið. Meiri hluti þingmanna er á þeirri skoðun að ríkisstjórnin eigi að vinna að því að við höldum íslenska ákvæðinu, útvíkkum það á samningafundinum sem verður haldinn í Kaupmannahöfn síðar á árinu. Ég vil nefna að forseti tók vel í að taka það mál á dagskrá og það var samið um umræðutíma. Ég tek því undir tillögu hv. þm. Marðar Árnasonar um að við getum tekið þessa hvalveiðitillögu á dagskrá líka, í ljósi þess að meiri hluti þingmanna er á tillögunni og við getum þess vegna samið um ræðutímann og bara klárað það mál.