136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

vextir og verðtrygging.

401. mál
[15:09]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um vexti og verðtryggingu. Þetta mál er sérstaklega lagt hér fram í þeim búningi sem það er í með tilliti til þess ástands sem er í þjóðfélaginu. Það er flutt af okkur þingmönnum Frjálslynda flokksins, þeim sem hér stendur og hv. þm. Grétari Mar Jónssyni. Við lögðum þetta mál fram á mánudaginn í síðustu viku, hygg ég að það hafi verið. Málið snýst um að taka á þeim mikla vanda sem við er að fást að því er varðar stöðu fólks, almennra íbúðareigenda í landinu, taka sérstaklega fyrir þá stöðu sem fólk lendir í vegna lána sinna og lántöku til öflunar eigin húsnæðis.

Fyrir einu ári eða svo var mjög auðveldur aðgangur að lánsfé og kannski alveg fram á mitt síðasta ár. Þá var einnig mikil uppsveifla á byggingarmarkaði og íbúðaverð steig hratt. Þó að margir vöruðu við því að það gæti ekki verið til endalausrar framtíðar að byggingakranar væru á Stór-Reykjavíkursvæðinu, eins og skógur í öllum úthverfum, á fullri ferð við að byggja íbúðir, brugðust menn ekki mikið við slíkum viðvörunum. Lítið mark var tekið á þeim sem vöruðu við því að byggingarmarkaðurinn væri keyrður áfram á miklum fjölda erlendra starfsmanna sem m.a. væru notaðir við að fjölga íbúðarhúsnæði mjög og vinna fyrir verktakafyrirtæki í byggingariðnaði.

Allt þetta samanlagt varð til þess að mikið framboð varð á húsnæði sem enn er óselt, einhverjar þúsundir íbúða sem enn eru óseldar. Það voru líka mikil viðskipti á húsnæðismarkaðnum og auðvelt að fá lán. Svo kom bankakreppan og dæmið hrundi, small á íslensku þjóðinni með þeim afleiðingum sem við vitum nú um.

Það er ekki nýtt, hæstv. forseti, að við í Frjálslynda flokknum flytjum hér í hv. Alþingi tillögur um að afnema verðtryggingu á lánum. Við höfum flutt nokkrum sinnum mál sem snúa að þeim þætti. Meðal annars var flutt og mælt fyrir þingmáli, um afnám verðtryggingar lána, haustið 2006, 10. mál 133. þings. Fyrsti flutningsmaður var Sigurjón Þórðarson, þáverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, en meðflutningsmaður ásamt mér var Magnús Þór Hafsteinsson, sem þá var einnig þingmaður flokksins. Það var þingsályktunartillaga um að fela þáverandi viðskiptaráðherra að hefja undirbúning að því að verðtrygging húsnæðislána yrði afnumin.

Þessi upprifjun er til að minna á forgrunn þessa máls. Við í Frjálslynda flokknum höfum sem sagt flutt um það tillögur nokkrum sinnum að menn tækju til við að leggja niður það kerfi sem við erum nánast einir þjóða með, þ.e. að hafa lán verðtryggð. Við bendum á það í greinargerð með þessum tillögum okkar á árunum 2006, sennilega 2005 líka, hæstv. forseti, að eðlilegt sé að líta til þess við afnám verðtryggingarinnar hvernig staðið sé að lánakjörum í nágrannalöndum okkar, Noregi og Danmörku, þar sem fólk er vissulega að kaupa sínar íbúðir o.s.frv., að við reyndum að nálgast þann veruleika sem þar hefur viðgengist árum saman.

Tillögur okkar um þetta fóru í nefnd og voru svæfðar þar eins og gerst hefur með mörg góð mál sem stjórnarandstöðuflokkar hafa flutt hér í hv. Alþingi á undanförnum árum. Betur hefði verið, hæstv. forseti, ef menn hefðu tekið til verka haustið 2006 og farið að skoða það í framhaldi af tillögu okkar hvernig rétt væri að skoða það ferli sem héti verðtrygging lána hér á landi og hvað gæti gerst þegar saman færi mikið þensluskeið og síðan mikið samdráttarskeið eins og við upplifum nú — mikið þensluskeið þar sem menn töldu að allt í lagi væri að kaupa hverja íbúð sem var til sölu vegna þess að verðið mundi hvort sem er hækka og bankastarfsmenn ráðlögðu fólki að það væri ekki mikil áhætta í því að taka bara lán, eignin mundi standa undir því, verð væri hækkandi á byggingarmarkaði og fasteignamarkaðnum almennt.

Núna stöndum við því miður frammi fyrir allt öðrum veruleika, þeim veruleika sem við reynum nú að bregðast við með þessu frumvarpi. Við höfum áður reynt að koma inn með þingsályktunartillögur, ná fram vilja Alþingis til þess að vinna sig í gegn út frá verðtryggingunni og því ferli en það hefur ekki gengið eftir.

Nú höfum við ákveðið að flytja mál sem tekur beinlínis á því ástandi sem ríkir í dag, ástandinu sem venjulegt fólk stendur frammi fyrir, og er full ástæða til að gera það. Við spurðum hæstv. viðskiptaráðherra í gær um hvaða kjör væru og hvaða samningar ættu sér stað í bankakerfinu þegar verið væri að yfirtaka lán frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana. Þó að ekki væri upplýst um aðferðirnar viðurkenndi hæstv. ráðherra að þar færu fram verulegar afskriftir þegar lán væru færð frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana. Ég hef hins vegar ekki orðið var við það og hef ekki fengið upplýsingar um það frá neinum lántakanda íbúðaláns í nýju bönkunum, sem áður voru þeir gömlu þar sem lánin voru tekin upphaflega, að viðkomandi einstaklingar hafi fengið afskriftir eins og þær sem gerðar hafa verið á milli gömlu og nýju bankanna. Ég hef ekki fengið upplýsingar um það, hæstv. forseti, og mér er ekki kunnugt um að bankarnir bjóði fólki almennt greiðsluaðlögun með afskriftum.

Þátturinn sem við ræðum hér, hæstv. forseti, er sá sem snýr að verðtryggingunni, og tillagan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta — þetta er breyting á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/26. maí, 2001:

„Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

Þrátt fyrir ákvæði 14. gr. um að skuldbindingar séu verðtryggðar á grundvelli vísitölu neysluverðs skal engu að síður á tímabilinu frá 1. janúar 2009 til 1. janúar 2010 miða við 5% hámarkshlutfall. Verðtryggingarálag umfram 5% skal lagt inn á biðreikning.“

Ef einstaklingur kýs hins vegar að nýta sér ekki þetta almenna tilboð sem stendur öllum til boða getur hann sagt sig frá því. Þá segir í lagatextanum í 1. gr.:

„Kjósi lántaki að nýta sér ekki þessa heimild getur hann sagt sig frá henni og greitt samkvæmt upphaflegum skilmálum lánanna.“

Sem sagt, þetta er almenn regla sem gengur yfir öll verðtryggð íbúðalán þar sem fasteignir eru veðsettar á móti, hvort sem þær eru veittar af Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðunum, bönkunum eða sparisjóðunum. Við leggjum sem sagt til að sett verði þak á þær miklu álögur sem nú bætast á venjulegt fólk vegna verðbólgunnar og vísitölu verðtryggingar sem fylgir þar á eftir. Það verði beinlínis óheimilt að láta fólk greiða meira en 5% álag ofan á vexti. Vextir hafa svo sem verið breytilegir á undanförnum á árum á íbúðalánum, ef ég man rétt fóru þeir lægst í 4,15% hjá Húsnæðisstofnun og hafa sennilega verið ríflega 6% þegar þeir voru sem hæstir undanfarin ár en með verðtrygginguna til viðbótar. Stundum hefur verið sagt að lánveitendur, sjóðirnir, bankarnir og sparisjóðirnir væru bæði með belti og axlabönd gagnvart þeim sem lánin taka. Viðkomandi lánastofnanir væru alltaf 100% tryggðar gagnvart hækkun lána burt séð frá því hvort lántakinn, íbúðareigandinn, fólkið í landinu gæti staðið við skuldbindingar sínar eða ekki, hvort launakjör í landinu hefðu þróast niður á við, eins og þau hafa gert núna, hvort íbúðaverð hefur hrunið, eins og það virðist vera að gera núna. Alltaf skulu lánin þjóta upp og höfuðstóll þeirra hækka í samræmi við verðtrygginguna.

Þetta er gjörsamlega óþolandi ástand og það verður að bregðast við því. Við leggjum til að staða venjulegs fólks í þessu landi, venjulegra skuldara, sé bætt. Það má kannski orða það svo að við leggjum til að litli maðurinn hafi einhvern aðgang að skuldaívilnun eða færðar verði niður þær greiðsluskuldbindingar sem á hann hafa verið lagðar í núverandi húsnæðislánakerfi. Það hafa verið lagðar á hann ýmsar aðrar kvaðir, launin hafa ekki fylgt þeim samningum sem búið var að gera, vöruverð hefur hækkað, kaupmátturinn hefur lækkað og fasteignin sem keypt var hefur lækkað í verði. Í mörgum tilfellum er svo komið að þau lán sem tekin voru og þeir fjármunir sem fólk lagði með sér þegar það keypti húsnæðið fyrir einu, tveimur eða þremur árum síðan, eigið féð sem það lagði inn og taldi sig eiga í byrjun, er horfið. Lánið er komið upp fyrir íbúðarverðið í dag og algjört misgengi er orðið á milli lánaskuldbindinganna og eigna fólksins.

Við, þingmenn Frjálslynda flokksins, segjum: Á þessu verður að taka og það er þess vegna sem við leggjum þetta mál fyrir þingið. Ég hygg að þetta mál komi alveg á réttum tíma inn í þingið og vegna hvers? Vegna þess að innan örfárra daga munu væntanlega koma fram verulega góðar upplýsingar frá Seðlabanka Íslands um tekjudreifingu hjá fólkinu, miðað við skuldastöðu þess o.s.frv., og frekari úrvinnsla á skuldum heimilanna en þegar hefur birst frá Seðlabanka Íslands. Ég tel því að fari málið í nefnd á morgun komi það algjörlega á réttum tíma þangað svo að hægt sé að meta hvaða kostnaður fylgi þeirri tillögu sem við leggjum til hér.

Við höfum ekki getað metið það sjálf vegna þess að við getum ekki áætlað nákvæmlega hvernig verðbólgan verður á þessu ári eða hver greiðslugeta fólks og skuldastaða er. Við leggjum til að allt umfram 5% fari á sérstakan biðreikning og bíði þar þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð í landinu að loknum kosningum sem getur þá tekið heildstætt á málunum fyrir framtíðina. Við leggjum til að sú tillaga sem hér er lögð fram gildi sem bráðabirgðaákvæði allt þetta ár þannig að menn hafi nægan tíma, í sumar og fram á haustið, til að vinna úr þeim gögnum sem okkur berast. Þessi tillaga verður þá væntanlega til þess að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fjölskyldna sem nú stefnir í.

Í greinargerð með þessu frumvarpi segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er leitast við að koma til móts við lántakendur sem eru með verðtryggð lán með fasteignaveði og búa við að höfuðstóll lána þeirra hefur hækkað mikið vegna verðbólguskotsins sem nú ríður yfir og má rekja til bankahrunsins sl. haust. Nú er svo komið að greiðslubyrði margra heimila í landinu er orðin svo þung að erfitt getur reynst að ná endum saman. Það er því afar brýnt að gripið sé til aðgerða áður en sjóðir, bankar eða lánastofnanir eignast fjölda íbúða vegna gjaldþrota.“

Hvað skyldi nú gerast, hæstv. forseti, ef menn gera ekki neitt og sjóðirnir eignast fjölda íbúða vegna gjaldþrota? Ég tel að verði ekki brugðist við nú af talsverðri festu og ákveðni og komið í veg fyrir það vegna greiðsluerfiðleika fjölda fólks sem keypti sér íbúðir eða hús meðan lánaframboðið var mikið, muni sjóðir og bankar yfirtaka eignir fólks í mörgum tilvikum. Staða margra hefur versnað hratt vegna minni atvinnu og lækkandi tekna jafnvel þó að þeir séu enn þá í fullri vinnu, hvað þá þeirra sem nú eru í hálfu starfi eða atvinnulausir. Vandinn er því mikill nú þegar og hann vex hratt.

Nú eru um 17.000 manns skráðir atvinnulausir hér á landi. Geri menn ekki róttækar almennar ráðstafanir eins og lagt er til af okkur þingmönnum Frjálslynda flokksins í þessu frumvarpi verða Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir, bankar og sparisjóðir fljótlega eigendur að miklum fjölda fasteigna sem venjulegt fjölskyldufólk ræður ekki lengur við að borga afborganir af og sér kannski ekki tilganginn í því að borga þar sem verðmæti eignarinnar er komið langt undir áhvílandi skuldir. Húsnæðisverðið lækkar en vísitala verðtryggingar hækkar öll verðtryggð lán mjög hratt í 17–18% verðbólgu.

Vandinn er mikill og fer vaxandi og það verður að bregðast við honum. Þetta er tillaga okkar í Frjálslynda flokknum til að bregðast við vandanum, að festa hámarkshlutfall niður með 5% verðbótareikningi og gefa nýrri ríkisstjórn nægjanlegan tíma til að vinna úr málunum, en ekki að gera bara eitthvað og henda því í framkvæmd einn, tveir og þrír, nema menn séu þá tilbúnir með hugmyndir og búnir að finna réttar útfærslur og réttar niðurstöður. Það verður auðvitað að leggja mat á þær upplýsingar sem munu berast frá Seðlabankanum væntanlega innan fárra daga eða vikna.

Hæstv. forseti. Til að hægt sé að leysa þann vanda sem við stöndum nú frammi fyrir verður að taka regluverkið til gagngerðrar endurskoðunar. Það þarf vafalaust að setja ný lög og reglur sem samstaða og sátt er um til frambúðar. Frjálslyndi flokkurinn telur brýnt að við þessa endurskoðun verði stefnt að því að afnema verðtrygginguna með öllu. Það er stefna okkar í Frjálslynda flokknum. Við höfum lagt það til í mörg ár að þannig verði unnið að málum. Við samþykktum tillögu um það á landsfundinum okkar í Stykkishólmi að unnið verði að því í algjörum forgangi næstu þrjú árin að afnema verðtrygginguna og koma lánafyrirkomulaginu varðandi íbúðalánin niður á sams konar fyrirgreiðslu og við þekkjum frá helstu nágrannalöndum okkar.

Við lögðum fram mál á sl. hausti sem var 16. mál þingsins. Þar var lagt til afnám verðtryggingar til að tryggja hagsmuni fólksins í landinu sem best. Við sögðum líka: Þangað til heildarendurskoðun hefur farið fram er mikilvægt að koma til móts við lántakendur verðtryggðra lána með aðgerðum. Hér eru þær lagðar til. Hér eru lagðar til aðgerðir um það hvernig taka eigi á vanda fjölskyldna og einstaklinga, vanda litla mannsins í þjóðfélaginu sem einn á að bera allar verðtryggingar og skuldir. Annars staðar afskrifa menn skuldir frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana, gagnvart fyrirtækjum sem lent hafa í vandræðum en ekki hefur verið mótuð slík leið að því er varðar fjölskyldurnar í landinu.

Það er mikilvægt að það verði gert. Þess vegna leggjum við hér til lagabreytingu nú sem gilda á fyrir allt árið 2009 og gefur nýrri ríkisstjórn nægan tíma til að höndla með þessi mál eins og henni sýnist best miðað við allar bestu fáanlegu upplýsingar. Af því að verið er að vinna þær teljum við að þetta mál komi alveg á réttum tíma inn í þingið og til umfjöllunar í nefnd þegar upplýsingar verða tiltækar.

Við teljum að við tímabundna frystingu verðtryggingar veitist ríkisstjórninni nægilegt ráðrúm til framhaldsaðgerða, þ.e. þeirri ríkisstjórn sem tekur við eftir kosningar. Við getum alveg búist við því að jafnvel verði liðið vel á maímánuð þegar búið verður að mynda hér ríkisstjórn og hún er tilbúin til verka. Ef hægt er að taka á málunum fyrr en við gefum ríkisstjórninni svigrúm til að gera, í heilt ár, er það bara af hinu góða enda geta menn alltaf breytt lögum ef vilji er fyrir því hjá meiri hluta Alþingis.

Það verður að mæta skuldaþenslu heimilanna og finna varanlega lausn á vandanum fyrir framtíðina. Eðli verðtryggðra lána er að sá sem tekur slík lán er með öllu óvarinn á tímum verðbólgu. Aukist verðbólgan hækkar endurgreiðslubyrði lántaka. Samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu er stuðst við vísitölu neysluverðs sem grundvöll verðtryggingarinnar og er hún reiknuð hverju sinni samkvæmt lögum nr. 12/1995. Höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs og sú leið sem lagt er til að farin verði í þessu frumvarpi er að frysta viðmiðunarhlutfall til hækkunar höfuðstóls lána við 5% hámark þannig að það fari aldrei upp fyrir það mark á því tímabili sem tiltekið er í frumvarpi þessu. Sé raungildi viðmiðunarhlutfalls á tímabilinu hins vegar lægra en 5% ber að miða við það, þ.e. ef verðbólgan fer niður, sem væntanlega verður á þessu ári.

Með þeirri reglu að allt verðtryggingarálag umfram 5% leggist inn á biðreikning samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu gefst ríkisstjórninni tóm til raunverulegra aðgerða og er full þörf á því. En það er ekki hægt fyrir fólkið í landinu að bíða eftir því að slíkar reglur taki gildi sem koma í veg fyrir að bankarnir og sjóðirnir verði eignaraðilar að miklum fjölda íbúða. Hvað gerist þá? Halda menn að það muni ekki þurfa að afskrifa skuldir hjá bönkum og sjóðum þegar þeir hafa eignast íbúðir eftir gjaldþrot fólks? Jú, vissulega. Það verður nefnilega ekki undan því vikist að afskrifa eitthvað af þessum skuldum. Það verður að gerast gagnvart fólkinu líka. Nákvæmlega hvernig á að gera það til að allir njóti sem mestar sanngirni og tekið verði tillit til efnahags o.s.frv. — útfærslan verður að bíða þar til menn eru komnir með þær tölur og gögn í hendurnar sem nauðsynleg eru. En það er ekki hægt að bíða áfram eftir því að fólk missi eignir sínar og verði gjaldþrota, það er ekki hægt, hæstv. forseti. Þetta frumvarp er sérstaklega samið í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að hér skapist ástand þar sem húsnæði fólksins verði að stórum hluta í eigu sjóða og banka, sem munu þá vissulega þurfa að horfast í augu við að þær eignir verða ekki seldar aftur á sama verði og þær voru teknar inn á. Við teljum að mæta eigi fólki af sanngirni í því ástandi sem núna er, fólkið í landinu bjó ekki til þetta ástand. Það tók vissulega þátt í lántökum undir þeim kringumstæðum sem voru í landinu en það er ekki hægt að ásaka venjulegt fólk í landinu fyrir að hafa búið þessa krísu til. Við verðum að sýna því sanngirni að þessu leyti og ég tel að við getum gert það með þeirri leið sem hér er lögð til.

Í tengslum við gildistöku þessa ákvæðis yrði ríkisstjórnin að láta framkvæma kostnaðarmat vegna frystingarinnar og það yrði að ákvarða hvernig farið yrði með greiðslu þeirra fjármuna sem út af ganga eða afskriftir af þeim sem færðar verða á biðreikninginn. Í ljósi þess að íbúðaverð á landinu lækkar hratt liggur fyrir að endursala eignanna verður ekki auðveld, hún verður þung á næstunni. Að okkar mati er miklu betra að taka til hendinni og stuðla að því að fólkið í landinu komist af þrátt fyrir þá stöðu sem uppi er. Það haldi íbúðum sínum eins og mögulegt er í stað þess að verða þess valdandi að lánastofnanirnar, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðirnir, sparisjóðirnir og bankarnir, eignist fjölda íbúða. Og hvað gerist svo? Ætla leigusalar á húsnæðismarkaði leigja út íbúðir eða ætla þeir að selja íbúðirnar á mikið lægra verði en þegar þeir tóku þær af fólkinu, þegar fólkið var sett nánast í gjaldþrot vegna þess að það réði ekki við greiðslurnar af íbúðunum?

Það er alveg ljóst, hæstv. forseti, að endursala á eignum sem bankarnir og sjóðirnir mun eignast verður þung. Það vita allir sem vilja vita það, hún verður þung. Það eru engar líkur til þess að þær eignir sem bankarnir og sjóðirnir munu yfirtaka seljist á því verði sem þær eru yfirteknar á eða með þeim veðum og skuldbindingum sem á íbúðunum hvíla. Þannig er það sjálfsagt líka í atvinnulífinu að afskrifa verður eitthvað af skuldum hjá fjölda fyrirtækja til þess að halda atvinnulífinu gangandi. Ef ég hef skilið svör hæstv. viðskiptaráðherra í gær rétt er slíkt ferli hafið þó að ekki hafi hann getað upplýst um þær vinnureglur nákvæmlega sem þar eru í gildi. Enda geri ég ráð fyrir því að þær verði stundum að vera mismunandi alveg eins og í þeim tillögum sem við leggjum fram. Að menn þurfi að móta sér sem samstæðastar reglur að því er varðar fyrirgreiðslu sem stuðlar að eftirgjöf svo að fyrirtækin og fólkið í landinu haldi eignastöðu sinni. Fólk geti haldið áfram að lifa hér mannsæmandi lífi en flýi ekki af landinu vegna þess að það telur sig ekki komast af hér eða sér ekki neinn tilgang í því að greiða af eignum sínum.

Hæstv. forseti. Í lokin vil ég minna á að fyrir örstuttu var á Alþingi samþykkt tillaga — um hvað? Um að fella niður verðtryggingarákvæði gagnvart sveitarfélögum. Það var ekki mikill vandi, menn gerðu það á mettíma, allir studdu það, ég studdi það og hv. þm. Grétar Mar studdi það og margir fleiri. Það sneri að sveitarfélögunum, að ákvæðum í 9. gr. að því er varðar greiðsludrátt o.fl. Nú er hins vegar komið að fólkinu í landinu, litla manninum, og það er nauðsynlegt fyrir okkur að sýna skynsemi og göfuglyndi í því máli sem við ræðum hér. Það er vandasamt. Það er líka vandasamt hjá fólkinu að lifa í landinu við núverandi aðstæður.