136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

vextir og verðtrygging.

401. mál
[15:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta skiptir verulega máli upp á framkvæmdina á þessu. Ef ég skil það rétt á vísitalan ekki að hækka meira í þessum útreikningum en um 5% á árinu, þ.e. hún á þá að vera 351,5 1. janúar 2010. Hún er 334,8 núna og 5% í viðbót gera 351. Þetta vildi ég hafa á hreinu.

Svo vil ég geta þess að sennilega er þetta úrræði tómt vegna þess að vísitalan mun ekki hækka þetta mikið. Verðbólguhraðinn var í október 29%, í nóvember 23%, síðan í desember 20%, í janúar 7%, og í febrúar 6%. Og ég geri ráð fyrir að um næstu mánaðamót verði spáin um 3,6% ef hún verður ekki 0%. Hraði verðbólgunnar er að minnka mjög mikið þannig að ég efast um að vísitalan muni hækka um 5% yfir árið.

Og það er annað, fyrst við töluðum um þetta svartnætti. Gengisvísitalan er undirstaða verðbólgunnar á Íslandi og hefur verið það. Það er engin eftirspurn. Það er bara gengið. Gengið hefur nú verið að styrkjast mjög mikið, um 15–20% frá áramótum. Það þýðir að verðbólgan mun fara mjög hratt niður. Ef einhver samkeppni er í landinu ætti verðbólgan að fara mjög hratt niður þannig að hún er í rauninni farin. Þetta frumvarp kemur því dálítið seint fram.