136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

vextir og verðtrygging.

401. mál
[16:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þeim löndum í kringum okkur sem eru með óverðtryggð lán eins og víðast hvar er og eiginlega alls staðar eru breytilegir vextir. Þeir fara eftir markaðsvöxtum í landinu á hverjum tíma. Þegar verðbólgan fer upp í 4% á evrusvæðinu eins og á síðasta ári hækka þessir vextir. Það getur orðið óbærilegt fyrir fólk. Ef grunnvextirnir eru kannski 3% og síðan bætast við 4% til viðbótar þá erum við að tala um rúmlega 7% vexti og það getur orðið óbærilegt á mjög háum skuldum, 30 millj. og 7% gera 2,1 millj. á ári í vexti. (Gripið fram í.) Það er ekkert auðvelt að borga slíkt, enda kemur það strax í ljós í evrulandinu þegar verðbólgan verður einhver að ráði að lántakendur kvarta. Lántakendur þurfa að selja húsin sín því að þeir ráða ekki lengur við þau og missa þau á uppboði. Það er engin lausn á þeim vanda að hafa óverðtryggða vexti. Fólk lendir alveg jafnmikið í Bretlandi og annars staðar í uppboðum og víðast hvar í Evrópu núna, sérstaklega á Spáni þar sem er mikið verðfall á eignum. Þar er nákvæmlega það sama þó að þar sé ekki verðtrygging. Þetta verðfall á eignum er ekki verðtryggingunni að kenna, þetta er bara markaðurinn. Það er búið að byggja allt of mikið eins og hér var nefnt í framsögu. Það er allt of mikið af byggingarkrönum. Það er búið að byggja allt of mikið og það hlaut að koma fram í lækkun á verði húsnæðis.