136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

vextir og verðtrygging.

401. mál
[16:15]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Hér ræðum við frumvarp sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Fyrsti flutningsmaður, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, hefur farið yfir málin og tilganginn með frumvarpinu. Kannski er því óþarfi að fara yfir það allt saman aftur, en við mismunum fólki. Búið er að fella niður verðtryggingu hjá sveitarfélögum af gatnagerðargjöldum og holræsagerð og öðru þess háttar. Við erum að mismuna, annars vegar sveitarfélögunum og hins vegar fjölskyldunum í landinu. Það er ljóst.

Hv. þm. Pétur Blöndal talar um svartnættisraus og bölsýni — ég á nánast ekki til eitt einasta orð yfir þá afstöðu þingmannsins — þegar við horfum upp á það að 40% af heimilunum í landinu eru lent í mjög verulegum vandræðum og þeim á jafnvel eftir að fjölga og vandræðin að aukast. 70% af fyrirtækjum í landinu eru í mjög miklum erfiðleikum. Svo tala menn um að þetta sé ekki svo slæmt, það þurfi að horfa á þetta með bjartari — ég veit ekki hvað, björtum augum og framtíðin sé ekki svo slæm. Ég tók eftir því á ferðalögum með fyrrverandi stjórnarþingmönnum um landið að þeir vildu meina að þetta væri smáskúr og á morgun mundi stytta upp og þá yrði allt gott. Ég hef stundum sagt í gamni að þetta sé eins og að stinga hausnum í sandinn og halda að allt sé í lagi, eins og strúturinn gerir, eða þá að ekki dugi að setja sólgleraugu á þessa ágætu menn heldur þurfi þeir að vera með rafsuðuhjálm. Auðvitað er ástandið í þjóðfélaginu mjög slæmt og við höfum aldrei áður — að ég held nánast enginn núlifandi Íslendingur — lent í öðrum eins hremmingum og við göngum í gegnum núna.

Það er sorglegt að hlusta á menn reyna að nálgast þetta með þeim hætti að þetta sé einhver smotterísskúr og það verði komin sól á morgun og allt í góðu lagi. Ég man eftir því að fyrir nokkrum árum — eða ætli þau séu ekki orðin yfir 20 — var hér þingmaður sem hét Eggert Haukdal og barðist fyrir því að ná verðtryggingu af. Honum ofbauð hækkun á lánum í verðbólgu. Hann var hér eins og hrópandinn í eyðimörkinni, enginn hlustaði á hann eða sárafáir og hagfræðingar gerðu nánast grín að því að hann skyldi voga sér að tala um þetta og alltaf út af því að verið væri að verja lífeyrissjóðseign fólks og sparnaðinn hjá fullorðna fólkinu og annað í þeim dúr. Ég veit ekki betur en að margt fullorðið fólk sem hefur sparað allt sitt líf og átti einhverjar krónur, í hlutabréfum, peningasjóðum eða lífeyrissjóðum, hafi alls staðar orðið fyrir skerðingu. Það má benda á að lífeyrissjóðirnir hafa orðið fyrir verulegu áfalli, séreignarsparnaður í peningasjóðum hefur orðið fyrir verulegu áfalli að ég tali nú ekki um þá sem áttu hlutabréf í bönkunum, það fólk hefur orðið fyrir miklu áfalli því að sá sparnaður sem var í hlutabréfaformi hefur nánast horfið.

Hv. þm. Pétur Blöndal minntist á að gildistími frumvarpsins sé bara frá 1. janúar á þessu ári. Það er auðvitað hægt að skoða og láta hann ná lengra aftur í tímann.

Atvinnuleysi og þær hörmungar sem hrjá þjóðina núna eru það sem við þurfum að reyna að bæta og koma í veg fyrir að aukist. Við höfum ákveðna möguleika til þess, við getum veitt meiri fisk úr sjónum, virkjað og nýtt fallvötnin okkar og orku jarðar og gert ýmislegt til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og búa okkur til gjaldeyristekjur og skaffa fólki atvinnu. Það er auðvitað það sem við þurfum að gera og þetta frumvarp gengur út á það að við hjálpum fjölskyldunum í landinu og sköpum svigrúm fyrir nýja ríkisstjórn til að geta tekið á því sem þarf að gera til að fólk missi ekki heimili sín og fyrirtækin fari ekki öll í þrot. Út á það gengur þetta frumvarp og skapar ríkisstjórninni, nýrri ríkisstjórn, væntanlega eftir næstu kosningar, tækifæri og tíma og möguleika til að finna út hvernig hún ætlar að mæta — ætlar hún bara að hjálpa þeim sem eru að verða gjaldþrota eða ætlar hún að hafa jafnar aðgerðir til handa öllum? Hvernig ætlar hún að útfæra þá aðstoð sem fólkið í landinu þarf?

Við höfum stundum minnst á það í Frjálslynda flokknum að upphaf efnahagshörmunganna markist af frjálsa framsalinu í kvótakerfinu. Við hvikum ekkert frá því og áttum okkur á því að svo er. Þættirnir eru reyndar fleiri, eins og þegar Íbúðalánasjóður jók lánshlutfall sitt upp í 80% og einkareknu bankarnir lánuðu svo fólki 90% og upp í 100%. Það framkallaði ótrúlega þenslu í samfélaginu sem við súpum nú seyðið af. Við fengum fullt af útlendingum inn í landið til að hjálpa okkur við að byggja húsnæði sem stendur svo autt núna, bæði verslunar- og skrifstofubyggingar og íbúðarhús. Þetta eru allt hlutir sem miklir peningar tínast til og ónýttir peningar standa í þessum húsum. Mikil verðmæti liggja þar og nýtast hvorki einum né neinum.

Aðalatriðið hjá okkur í Frjálslynda flokknum er að við viljum hjálpa heimilum og fyrirtækjum í landinu. Ég hef stundum sagt að það er dálítið sorglegt að horfa upp á að það er alveg sama hvort Samfylkingin er í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki eða Vinstri grænum, í svokallaðri vinstri stjórn með stuðningi Framsóknarflokksins, fjórflokkurinn er alltaf eins, það er ekkert að ske. Það er ekkert verið að gera, við verðum ekki vör við hjá fjölskyldunum í landinu eða fyrirtækjunum að neitt sé að gerast. Meira að segja næst ekki að klára sumt af því sem fyrri ríkisstjórn lagði til og var komin með í gang eða ýta því úr vör þannig að eitthvað verði úr hlutunum. Þetta er sorglegt að horfa upp á. Við í Frjálslynda flokknum eigum þá framtíðarsýn að verðtrygging verði lögð af, en eins og komið hefur hér fram, verður það ekki gert á einni nóttu og þótt teknir yrðu upp nýir skilmálar í lánafyrirgreiðslu kæmu þeir ekki nærri því strax inn í öll lán. Það þarf að skuldbreyta gömlum lánum sem eru jafnvel allt til 40 ára. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að það breytist ekkert einn, tveir og þrír. Það er kannski misskilningur hjá mörgum.

En við horfum upp á það að skuldir fyrirtækja í landinu eru skornar niður, gott er dæmið um Morgunblaðið eða Árvakur, en það sama er ekki gert fyrir fjölskyldurnar í landinu. Skuldir eru ekki skornar af þeim eða þeim hjálpað. Þótt þetta sé ekki alveg eins er til fólk sem skuldar 40–50 millj. kr. í íbúðarhúsum sínum og á ættingja sem vildu yfirtaka þau ef þeir fengju felldar niður 20–30 millj. kr. af húsinu og fengju að kaupa eign á kannski 20 millj. kr. sem hvíldu á 50 millj. kr. Fyrir þá fjölskyldu væri auðvitað hægt að skipta um kennitölu og fá einhvern uppkominn krakka til að kaupa, en þetta er það sem við búum við, við erum farin að horfa upp á að fyrirtækjum er útdeilt. Ég hef lagt fram frumvarp sem gengur út á það að fjármálastofnanir í eigu ríkisins að hálfu eða öllu leyti muni sjá til þess að allar eignir verði boðnar út eða auglýstar til sölu og allir hafi tækifæri til að bjóða í þær eignir eða hluta af fyrirtækjum eða fyrirtæki til að tryggja það að ríkið og þeir sem hafa lánað í þessi fyrirtæki eða eignir fái sem mest.

Hægt er að ræða margt varðandi þetta frumvarp. Það vekur auðvitað furðu að nú eru í þingsalnum þingflokkur Frjálslynda flokksins og forseti þingsins, sem er nú gamall samherji okkar, (Gripið fram í.) og síðan eru hér hv. þm. Jón Bjarnason, vinstri grænn, og hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir úr Samfylkingunni. Þetta er nú allur hópurinn sem fylgist með (Gripið fram í.) og talar um þessi mál, það eru ekki fleiri sem hafa áhuga á að ræða þau. Hér horfum við á ráðherrabekkina hvorn sínum megin og hér eru engir ráðherrar til að taka þátt í umræðunni. Það er auðvitað sorglegt að vera á þessum vinnustað upp á þau býtti að ekki er meiri áhuga hjá þingmönnum en raun ber vitni til að fylgjast með og taka þátt í umræðum um jafnmikilvægan málaflokk og við leggjum hér til, þ.e. að taka verðtryggingu af lánum og breyta því munstri þannig að hún verði aldrei hærri en 5% á meðan verðbólgan er svona mikil og lækki svo þegar verðbólgan fer niður fyrir 5%.

Þetta höfum við farið yfir og kynnt frumvarpið og komið að ýmsum öðrum þáttum sem tilheyra þessum hörmungartímum. Maður væntir þess að þingmenn sjái sóma sinn í því að veita frumvarpinu brautargengi og tryggja að það fari í gegnum þingið. Fátt viturlegra hefur verið lagt fram á þinginu en þetta frumvarp. Þetta er það frumvarp sem hjálpar fólkinu og mundi hjálpa fjölskyldunum og fyrirtækjunum í landinu strax. Þess vegna skora ég á þingheim — og vonandi er hann einhver staðar að hlusta, en ekki bara að leika sér einhvers staðar úti í bæ eða kynna sig fyrir prófkjör eða kominn í kosningabaráttu — að taka þátt í störfum þingsins og ræða þessi mál.