136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

vextir og verðtrygging.

401. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem fram hafa farið um þetta mál. Þegar rædd eru mál eins og verðtrygging á lánsfé á Íslandi við núverandi aðstæður sýnist sitt hverjum. Menn hafa ekki sömu sýn á hlutina og ekkert er við því að segja. Menn horfa á þetta frá ýmsum sjónarhornum og velta hlutunum fyrir sér.

Ég vil hins vegar ítreka það hér við lok umræðunnar, um leið og ég þakka þingmönnum fyrir að hafa tekið þátt í henni, að fyrir okkur í Frjálslynda flokknum er þetta ekkert nýtt mál. Ég minni á umræðuna sem fram fór þann 21. nóvember árið 2006 um þingsályktunartillögu okkar um verðtryggingu og afnám hennar. Sú tillaga fól í sér að unnið yrði að því með skipulegum hætti, eftir gaumgæfilega skoðun við málsmeðferð, að finna leið til að afnema verðtrygginguna þannig að við stefndum út úr því ástandi að vera með verðtryggð lán, nánast ein þjóða á norðurhveli jarðar og ekki í neinu samræmi við lánakjör og lánaskilmála í löndunum í kringum okkur. Í þeirri umræðu, í nóvember 2006, bentum við á að æskilegt væri að við tækjum upp svipað fyrirkomulag og í nágrannalöndum okkar að því er varðaði verðtrygginguna. Út á það gekk sú tillaga sem við lögðum fram þá og reyndar nokkur þing þar á eftir.

Hæstv. forseti. Þó að margir hafi ekki tekið eftir þessari umræðu hjá okkur haustið 2006 er ástandið þannig nú að menn hlusta. Menn sjá að verðtryggingin er mikið mál, hún hækkar skuldir heimilanna. Við bentum réttilega á það í umræðunni sem þá var að það ástand gæti komið upp að allt gengi á misvíxl og það er að gerast í dag. Eignaverðið er að lækka en lán fólks, skuldbindingar og kvaðir, eru að hækka og fólk fær ekki undir þessu risið, margt hvert.

Það kann vel að vera rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að talsverður hluti fólks ráði við að borga af skuldbindingum sínum — guð láti gott á að vita ef svo er, ekki ætla ég að gera lítið úr því. En eins og ég benti á er Seðlabankinn að vinna nákvæmar upplýsingar um eignastöðu fólks, tekjur fólks og skuldastöðu þannig að þetta mál er algjörlega á réttum tímapunkti hér á þinginu, um það þarf að fjalla í nefnd og taka á því með skipulegum hætti.

Hv. þm. Pétur Blöndal benti á það hér í umræðunni að kannski hefði verið eðlilegt að sú tímasetning sem við miðuðum við, 1. janúar 2009, næði lengra aftur í tímann og miðað yrði við október eða nóvember 2008. Ekki ætlum við í Frjálslynda flokknum að hafna því að menn skoði það í nefnd hvort hægt sé að útfæra þetta á þann veg að horft sé lengra aftur í tímann ef það kemur fjölskyldunum betur og hægt er að finna á því skynsamlega útfærslu. Hins vegar er það auðvitað svo að þegar verið er að meta stöðu fólks er hún mismunandi eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á og það er þess vegna sem við leggjum málið upp eins og það er. Við leggjum það þannig upp að reglan taki strax gildi gagnvart öllum og ef menn vilja síðan ekki fá biðreikninginn geti þeir sagt sig frá honum og greitt samkvæmt upphaflegum skilmálum lánanna. En ekki öfugt, að menn þurfi að leita eftir því að fá einhvers konar bið, niðurfellingu eða geymslu, á skuldunum eins og er í dag.

Ég hef hringt í Íbúðalánasjóð og spurt: Hvað er mikið um það og hverju munar það fyrir fólk ef notuð er svokölluð vísitala sem tekur mið af launaþróun eða atvinnuvísitölu? Jú, það munar örfáum prósentum en sárafáir notfæra sér þá leið, hæstv. forseti, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk frá Íbúðalánasjóði. Það er eins og fólk átti sig ekki á því hvaða leið það getur farið. Fjöldamargir kvarta síðan undan því að þeir séu ekki í stöðu til þess að fá frystingu o.s.frv. Ef fólk verður atvinnulaust getur það fengið frystingu, eftir því sem mér skilst af upplýsingum frá Íbúðalánasjóði, en það tekur allt sinn tíma í afgreiðslu og þetta þrengir mjög að hag heimilanna.

Það er því geysilega mikilvægt að taka á þessu á þann hátt að búinn sé til almennur farvegur sem vinnur á þessu um tíma, því að þetta er tímabundin aðgerð sem við leggjum til til þess að gefa nýrri ríkisstjórn tækifæri á að taka skipulega á málunum þegar allar upplýsingar liggja fyrir, varðandi eignastöðuna, varðandi skuldirnar, varðandi tekjur heimilanna o.s.frv., og þegar hægt er að móta skynsamlegar reglur um það hvernig fara eigi í að létta greiðslubyrði fólks að því er varðar þessi lán.

Eins og ég sagði áður, hæstv. forseti, er enginn akkur í því fyrir lánastofnanir í landinu, hvorki Íbúðalánasjóð, sparisjóðina, lífeyrissjóðina eða bankana stóru — sem nú eru reyndar frekar litlir miðað við það sem áður var — að lenda í því að þurfa að yfirtaka fjölda almennra eigna fólks, íbúða, húsa, raðhúsa, einbýlishúsa, og ætla svo að reyna að selja það á markaði þar sem verð er að lækka og ef íbúðir verða teknar af fólki í gjaldþroti eða öðru slíku er ljóst að þær eru ekki söluvara í dag. Fleiri þúsund íbúðir, sérstaklega hér á suðvesturhorninu, eru óseldar.

Fólk talar um að ekki sé hægt að afskrifa gagnvart venjulegum lántakendum vegna þess að það þýði einhverja niðurfærslu eða að bankar og sjóðir tapi einhverju fé en þeir munu tapa fé í núverandi ástandi. Ef bankarnir og sjóðirnir, Íbúðalánasjóður, sparisjóðirnir, lífeyrissjóðirnir, þurfa að taka yfir fjölda íbúða með því að fara með fólk í gjaldþrot eða taka af því íbúðirnar munu þeir ekki selja þær á því verði sem þeir yfirtaka þær á og ekki heldur með skuldareikningnum og verðbótareikningnum sem bæst hefur á. Það eru bara tölur á blaði, hæstv. forseti, og engin rök geta sýnt fram á að þeir peningar komi til baka inn í viðkomandi lánastofnanir. Menn standa frammi fyrir þeirri staðreynd að það mun þurfa að afskrifa og við leggjum hér til hvernig hægt er að standa að því að taka ákveðinn hluta umfram 5% inn á sérstakan biðreikning og síðan megi meta það, þegar ný ríkisstjórn er komin í landinu og hefur þá nægan tíma, út allt næsta ár, til að skoða það hvernig með eigi að fara með það að markmiði m.a. að afskrifa skuldir fólks, lækka þær.

Ég benti á það áðan, hæstv. forseti, að við vorum að afgreiða hér lög að því er varðar sveitarfélögin og þar vorum við að aflétta verðtryggingu — var það ekki þegar menn skila inn húsgrunnum sem þeir ekki geta notað eða varðandi gatnagerðargjöld og annað slíkt? Ég held að ég muni það rétt, það eru bara fáeinir dagar frá því að þetta var samþykkt. Það stóð ekkert á því að afgreiða það gagnvart sveitarfélögunum.

Ég bendi á grein sem var skrifuð í morgun af Sigrúnu Elsu Smáradóttur sem er borgarfulltrúi. Í niðurlagi þeirrar greinar segir hún, og er þar að tala um skuldir heimila og fyrirtækja o.s.frv., með leyfi forseta:

„Það er afleitt hvað opinberum aðilum reynist auðvelt að nota sameiginlega sjóði til að bæta öllum öðrum en heimilum landsins það tjón sem hlotist hefur af þeirri verðbólgu sem efnahagshruninu hefur fylgt. Meðan ekkert er gert til að skipta tjóninu milli lánveitanda og heimila er algjörlega óþolandi að seilst sé í vasa almennings til að bæta öðrum tjón langt umfram sanngirnissjónarmið.“ — Hér er verið að tala um verktaka sem gera samninga við Reykjavíkurborg o.s.frv.

Ég vek athygli á þessu, hæstv. forseti, vegna þess að þetta dregur líka fram áherslurnar sem voru hér í samræðum í gær við hæstv. viðskiptaráðherra um það hvers konar afskriftir ættu sér stað í bankakerfinu, eftir hvaða reglum og hvort þær væru raunverulegar og allt slíkt. Hæstv. ráðherra upplýsti að þær ættu sér stað. Hann gat ekki upplýst eftir hvaða reglum en sagði samt að það lægi fyrir að afskrifað væri á milli gömlu bankanna og yfir í nýju bankana. Á þetta hefur verið bent, m.a. af fólki sem skuldar í bönkunum gengistryggð lán.

Það er því mjög margt að gerast hér í þjóðfélaginu sem virðist ekki ná til almennings, hvað þá litla mannsins. Það virðist vera svo að almenningur eigi að bera allar verðtryggingar og allar vaxtahækkanir og allar gengistryggingarhækkanir en hægt sé að vera með alls konar afskriftir eftir ýmsum leiðum gagnvart öðrum í bankastofnunum og sjóðum. Við teljum því meira en tímabært að komið verði til móts við fólkið í landinu með beinni aðgerð, að það þurfi ekki að setjast á biðbekkinn með að fá hlutina í gegn heldur geti gengið að því sem vísu að skorið verði niður og sett inn á biðreikning með það að markmiði, þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum og allar upplýsingar liggja fyrir, að hægt sé að ákveða lækkun afborgana fólks og skuldbindinga að því er varðar húsnæðislánin, lán sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Það er tillagan sem við ræðum hér, hæstv. forseti, og snýr að því ástandi sem uppi er í þjóðfélaginu.

Hæstv. forseti. Mig minnir að hv. þm. Pétur Blöndal hafi sagt það hér í umræðunni að það væri kannski fyrst og fremst unga fólkið sem væri að lenda í þessu, fólk sem hefði keypt íbúðir síðustu fjögur ár. Það kann vel að vera en ætli það sé nú ekki nokkur fjöldi sem hefur verið að kaupa sér íbúðir síðustu fjögur ár. Kannski er einhver hluti af þessu fólki hættur að vinna eða hefur ekki vinnu en íbúðalánið hækkar og við það fæst ekkert ráðið og samningar eru ekki í hendi til þess að taka á því.

Einnig var minnst á misgengi lána og launa sem varð fyrir mörgum árum þegar misgengishópurinn var sem öflugastur hér, ég held það hafi verið hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson, þáverandi þingmaður, sem fór fyrir þeim hópi á sínum tíma, svokölluðum misgengishópi, ásamt fleiri þekktum einstaklingum, en þá var slík eignaupptaka í gangi, verðtryggingin og verðbólgan mældu upp lán fólks en kaupið lækkaði og launabæturnar sem áttu að fylgja komu ekki fram og fólk réði ekki við mismuninn á milli hækkandi skuldbindinga og lækkandi launa. Það var eignaupptaka, hæstv. forseti, alveg eins og er að verða núna gagnvart fólki sem skuldar í íbúðunum sínum. Það gekk til þeirra samninga í góðri trú og eftir miklar ráðleggingar fólks í bankakerfinu um það hvernig haga ætti lántökum og lánveitingum og hvað fólk þyrfti að gangast undir, fór í gegnum greiðslumat þar sem lagt var mat á það hvað fólk mætti bera af lánum en þær forsendur eru allar foknar út í vindinn í kjölfar bankahruns og verðbólgu.

Það verður að taka á þessu ástandi, hæstv. forseti, og ég hvet til þess að í hv. nefnd verði þetta mál vandlega unnið og skoðað. Ef menn telja að hægt sé að láta þetta virka lengra aftur en til 1. janúar 2009 hvet ég til þess en vænti þess að þær upplýsingar sem fram munu koma á næstu dögum og vikum, m.a. frá Seðlabanka Íslands, um eignastöðu, teknastöðu og skuldastöðu heimilanna í landinu, dugi til þess að vinna þetta mál skynsamlega með það að markmiði að skaðinn verði sem minnstur. Það verður alltaf einhver skaði en við getum vonandi haldið honum í lágmarki ef við förum þá leið sem hér er lögð til.