136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

almenn hegningarlög.

127. mál
[17:37]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir þá góðu ræðu sem hann flutti áðan um þessi tvö mál, um nauðgun og refsingu við nauðgunum og það að gera vændi refsivert. Greinilegt er að umræðan um þessi mál hefur vaxið og fólk er farið að sýna þeim meiri áhuga og taka betur eftir ofbeldinu sem fylgir þessum gjörðum.

Ég hugsa líka oft um það og hef stundum heyrt að svo illar athafnir beinist líka gegn börnum og það heyrir náttúrlega undir barnaverndarlög, líka að ungir drengir lendi oft í kynferðislegri misnotkun og kynferðislegum árásum. Reyndar er ekki eins mikið talað um það í dag en það þarf ekki endilega að vera vegna þess að svo lítið sé um það, heldur kannski vegna þess að þeir drengir sem hafa lent í svona árásum eru tregari til að tjá það og segja frá því. Við þurfum líka að hafa augun opin fyrir þessu. En sérstaklega langar mig til að þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans og þá fræðslu og þær upplýsingar sem komu fram í greinargerðinni með frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Fyrir sex árum sat ég hér á Alþingi Íslendinga og lagði þá fram þingsályktunartillögu sem hljóðaði svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hlutast til um gerð fræðsluefnis fyrir grunnskólastig um misjafnt hlutskipti og kjör kvenna um víða veröld.“

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Alþekkt er hér á landi hversu mikill munur hefur verið á réttindum kvenna og karla. Hægt er að nefna mörg hryggileg dæmi því til stuðnings. Viðhorf til kvenna hefur löngum verið í þá veru að konan eigi ekki að njóta sama réttar, sömu virðingar og sömu sæmdar og karlinn. Til dæmis sést þetta vel þegar við lítum í sögu kosningalöggjafar og menntamála. Núgildandi lög um jafnrétti kynjanna eru góðra gjalda verð en nauðsynlegt er að allir fái inngróna tilfinningu fyrir því að konunni ber sama staða og karlinum í samfélagi voru. Þá fyrst verður um raunverulegt jafnrétti og réttlæti á milli kynjanna að ræða.

Víða um veröldina er hlutur kvenna mjög bágborinn og í sumum löndum ríkir mikil kvennakúgun og konur [frá þessum löndum] ganga sums staðar kaupum og sölum og eru jafnvel þvingaðar í vændi á Vesturlöndum og víðar.

Sífellt er bent á slæma stöðu kvenna í mörgum þróunarríkjum og hversu illa er farið þar með konur. Nefna má mýmörg dæmi um umskurn kvenna og fleira. Frægt viðtal við sómölsku fyrirsætuna Waris Dirie vakti margan af værum blundi og einnig skelfilegar fréttir um konur í Bangladess sem brenndar höfðu verið í andliti með sýru vegna þess að þær hryggbrutu biðla sína.

Á undanförnum missirum hefur umræða aukist um nauðganir, vændi, klám og kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og konum. Er það ekki síst vegna fjölgunar ákæra og brota í þessum efnum. Margir telja að tilkoma netsins og aukin og fjölbreyttari fjölmiðlun eigi nokkurn þátt í þessu, þ.e. að virðing fyrir lífi og líkama annarra hafi farið þverrandi og einnig að kærleiksástin njóti ekki sömu viðurkenningar samfélagsins og fyrr. Hægt er að nefna mörg dæmi um sora sem unglingar og jafnvel börn hafa verið vitni að á þessu sviði. Ljóst er að slíkt hefur slæm mótandi áhrif á þá sem á horfa og getur bjagað og afskræmt það sem fallegt er og fagurt í augum Guðs og manna.

Við þessu ber að sporna af alefli. Það verður einungis gert með viðhorfsbreytingu og gæti gerð námsefnis um misjöfn kjör kvenna um víða veröld verið lóð á vogarskálarnar. Það ætti líka að vera vel til þess fallið að vekja börnin almennt til umhugsunar um það hversu skammt maðurinn er kominn á leið sinni í átt til réttlætis og einnig ætti slíkt efni að auka kærleika barna og unglinga í garð hvers annars og benda þeim á hversu hver einstaklingur er mikilvægur í því að skapa betri heim með kærleiksríkri framkomu.“

Þetta segir í greinargerðinni sem ég samdi með þingsályktunartillögunni. Hún spratt einmitt upp úr þeirri hugsun, að þegar mikið framboð er á klámi og ungt fólk horfir á klám, alls konar ógeð og viðbjóð, þá fá ungir drengir — t.d. varð ég einu sinni vitni að ungir strákar á fermingaraldri voru að horfa á ömurlegar klámmyndir og ég spurði sjálfan mig: Ungir drengir sem eru 14–15 ára gamlir sem horfa á svona, hvaða hugmyndir og hugsanir fá þeir um eðlilegt samlíf kynjanna? Þegar fólk horfir á svona, þegar unglingar horfa á svona getur það ekki orðið til þess að skapa virðingu og kærleika og ást fyrir hinum.

Síðan getum við hugsað um þessa hluti alla, eins og umræðuna um vændi, og í svona námsefni gæti t.d. verið spurning til drengjanna: Mundir þú vilja að dóttir þín væri vændiskona? Mundir þú vilja að systir þín væri vændiskona? Mundir þú vilja að móðir þín væri vændiskona? Þegar fólk fær svona verkefni í hendurnar og fær þessar hugsanir um lífið og virðinguna fyrir öðrum segir það: Nei, ég vil það ekki. Hvernig á ég að koma fram við aðra og hvernig ber mér að virða annað fólk? Allar slíkar pælingar og það að setja svona inn í námsefni og nálgast það kannski með því að horfa á fjarlægari lönd og færa það svo nær okkur sjálfum er vel til þess fallið að viðhorf og sjónarmið karla til kvenna, verði jákvæðari og þroskaðri en þau eru í mörgum tilvikum. Það þarf að byrja að gera þetta, við tölum hér um þá sem fremja glæpina og þá sem brjóta lögin, brjóta gegn náunga sínum en spurningin er: Er hægt að gera eitthvað til að draga úr þessu, til að þroska einstaklingana, til að auka vitund þeirra gagnvart lífi annarra? Það skiptir líka svo miklu máli.

Það er grundvallaratriði og getur orðið til þess að þessum glæpum fækki. Hvað hafa margir unglingar verið á netinu í dag, frá því kl. 8 í morgun, og séð ýmislegt sem ógeðslegt er, sem enginn fullorðinn veit um? Hvað hafa börnin okkar verið að gera í dag? Geta allir foreldrar svarað því til að þeir viti með vissu hver hefur samband við börnin þeirra í gegnum facebook, msn, tölvupósta og alls konar slíka miðla?

Ég vildi koma þessu inn í umræðuna, herra forseti, en vil alls ekki með þessum orðum draga úr því sem minn góði vinur, hv. þm. Atli Gíslason, leggur hér fram og bendir á með sinni góðu ræðu og sínu góða erindi. Ég vona að þetta verði til þess að fólk fari að hugsa af meiri virðingu hvert um annað í þessu öllu saman og ég ítreka það að lokum að þó að mest sé talað um konur í þessu sambandi vitum við náttúrlega að margir karlmenn verða líka fyrir þessu. Við sáum ekki fyrir löngu myndir um vestræna karlmenn sem fara í sérstakar kynlífsferðir til Tælands þar sem litlir strákar eru misnotaðir, sem er bara ógeðslegt. Þá skiptir svo miklu máli að umræða sé um þetta í samfélaginu og eitt af því sem verið var að gera hér er hluti af því og mjög gott að svo hafi verið. Af því að vikið hefur verið að öðru hér, þessu ofbeldi sem verður oft í heimi fíkniefna, í heimi áfengissýkinnar og þess ömurlega lífs sem fylgir eiturlyfjum, handrukkunum og vændi, sem er líka notað sem handrukkunartæki.

Það er margt svo ljótt sem á sér stað í tengslum við áfengissýkina og fíkniefnin. Á þessu þurfum við líka að taka, við þurfum að taka mun betur á því þegar 14 ára barn er tekið undir áhrifum áfengis, amfetamíns, kannabiss eða annarra fíkniefna. Hvernig tökum við á þeim málum? Að minni hyggju þurfum við að gera það mun betur, mun markvissar, og fylgja einstaklingnum betur því að sá sem er byrjaður að nota þessi efni er kominn með annan fótinn í undirheimalíf landsins og við þurfum að bregðast við því. Sá sem er kominn með annan fótinn í undirheimana er líka á leiðinni inn í þá vansæmd sem hefur verið nefnd í þessu máli um nauðganir og vændi og alla þá kúgun sem því fylgir. Þess vegna er einn hlutur líka í þessari forvarnafræðslu sá að láta börnin vita það mikið betur að amfetamín er hættulegt og miklu hættulegra en margt annað, eins og t.d. sykur. Börn læra voðalega mikið um hættu sykurs í heilsufræði í skólanum, en læra þau eins mikið um hvað amfetamín er hættulegt? Eða alkóhól sem náttúrlega felur í sér lygina? Við sjáum það svo oft.

Ég ætla ekki að segja meira um þetta að sinni en vil ljúka máli mínu aftur á því að þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir að fylgja þessum málum hér úr hlaði.