136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

almenn hegningarlög.

127. mál
[17:51]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Herra forseti. Mig langar til að leggja orð í belg og halda lofræðunum áfram og þakka persónulega fyrir hönd systra minna sex og systkinabarna, fyrir hönd dóttur minnar og dótturdóttur, 1. flutningsmanni, Atla Gíslasyni, sérstaklega fyrir það að leggja þessi mál fram í þinginu.

Hér er um að ræða tvö mál sem varða herta refsiramma vegna kynferðisbrota. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki áhugamanneskja um mjög harðar refsingar ef komist verður hjá þeim en ég tel að fleira þurfi að koma til í þessum málum. Ég fagna því jafnframt sem kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra áðan að aðgerðaáætlun gegn mansali hafi verið lögð fram í ríkisstjórn í dag og það er vissulega skref í rétta átt. Ég tel að með þeim málum sem hér eru til umræðu sé mikilvægt og stórt skref stigið í mannréttindabaráttu kvenna og barna hérlendis.

Í máli hv. þm. Atla Gíslasonar kom fram að í mars 2007 hafi Capacent Gallup kannað hug landsmanna til kaupa á vændi. Hann nefndi í máli sínu mjög margar kvennahreyfingar sem hafa veitt þeim málum víðtækan stuðning. Ég leyfi mér að fullyrða að það eru ekki bara kvennahreyfingar í landinu sem styðja mál af þessum toga. Ég þekki mjög marga karla sem gera það líka, enda varða þessi mál þjóðarhag, heilbrigði þjóðarinnar og okkar minnstu bræður og systur. Fátt er mikilvægara en að vernda þá sem minna mega sín og ég tel það hlutverk okkar að gera það og tryggja mannréttindi þeirra sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur í þinginu í gær og ég tel víst að nú hljóti brautargengi þau mál sem hér eru til umræðu í dag og borin fram af hv. þm. Atla Gíslasyni sem hefur verið vakinn og sofinn í hagsmunagæslu í mannréttindamálum og ég ítreka þakkir mínar til hans hvað það varðar.