136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

almenn hegningarlög.

127. mál
[18:00]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Það hefur sannarlega orðið viðhorfsbreyting með nýrri ríkisstjórn og það gafst lag sem þingmenn hafa gengið á, meðflutningsmenn að þessum frumvörpum og aðrir, og nú er bara að óska þess að allsherjarnefnd fari með vændiskaupafrumvarpið í gegn.

Ég þakka öllum fyrir sérstaklega góð viðbrögð við þeim frumvörpum sem ég mælti hér fyrir. Ég þakka líka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn og ég þakka þeim sem ruddu brautina, m.a. með vændiskaupafrumvarpinu.

Hvað nauðgunarfrumvarpið varðar hef ég fyrst og fremst sótt leiðbeiningar mínar til starfskvenna Stígamóta og Kvennaathvarfsins og fjölda kvenna sem hafa ráðlagt mér og lesið yfir skrif mín. Þeim er ég öllum afar þakklátur án þess að ég nefni þær á nafn.

Upphaf þess að ég fór að hugleiða afleiðingar nauðgana var reynsla mín úr starfi, af máli þar sem um hópnauðgun var að ræða og ekki var ákært fyrir — það var gjörsamlega ótrúlegt — og málaferli eftir það. Ég nefni líka dæmi af lyfjanauðgun, en þær fara mjög vaxandi, því miður, og ekki var heldur ákært út af því þótt þar hafi komið fram líkamlegir áverkar sem alls ekki stóðust frásögn glæpamannsins sem átti þar hlut að máli. Þá komu allar þessar afleiðingar fram, sem ég lýsti, í skýrslum Neyðarmóttökunnar, þessi skammvinnu eða tímabundnu viðbrögð, skjálfti og hræðsla, uppgangur, niðurgangur, ör hjartsláttur og allt slíkt sem allir vita að eru afleiðingar nauðgunar. Ég las auk þess þessar varanlegu afleiðingar út úr báðum konunum og það snerti mjög réttlætiskennd mína.

Næsta verk okkar er að tryggja þolendum enn betur aðstoð. Auðvitað veita Stígamót og Kvennaathvarfið verulega aðstoð, sérstaklega Stígamót, og þarf að styrkja fjárhagsgrundvöll þeirra. Starf þeirra hefur skilað miklum árangri en það þarf meira til. Það þarf líka endurhæfingarlífeyri og endurhæfingu. Mér er mjög minnisstætt í tilviki sem ég þekkti um konu sem kom út úr svona misþyrmingu gjörsamlega dauð til augnanna, sjálfsvirðingin farin og allt. Hún fékk aðstoð hjá Tryggingastofnun með nokkrum eftirgangsmunum. Það sýndi sig að teymi sérfræðinga gat leitt hana inn á réttar brautir þannig að einn daginn birtist hún mér, einu og hálfu ári síðar, vel til höfð, sjálfsvirðingin komin og lífið hafi kviknað í augum hennar á nýjan leik. Þetta er gríðarlega mikilvægt og ég beini því til hæstv. ráðherra tryggingamála að skoða það að tryggja endurhæfingu og endurhæfingarlífeyri þolenda kynferðislegs ofbeldis.

Stígamót og Kvennaathvarfið og öll þessi samtök sem hafa lagt hér hönd á plóginn og gert kraftaverk, sem maður þakkar fyrir, hafa svo sannarlega sannað gildi sitt. Við eigum í höggi við glæpastarfsemi sem er samofin starfsemi sem tengist og rennur saman í mansal, vændi, klám, eiturlyf og fleira. Þetta er gríðarlega öflug glæpastarfsemi sem teygir anga sína um allan heim og að baki henni standa jafnvel fjölþjóðlegir glæpahringir. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur á Íslandi til að vinna gegn því og frumvarpið um bann á vændiskaupum er einn merkur þáttur í því starfi.

Herra forseti. Ég legg til að báðum málum verði vísað til allsherjarnefndar.