136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:20]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér eru til umræðu hugmyndir framsóknarmanna um hvernig megi taka fyrsta skrefið í þeirri viðleitni að koma til móts við tugþúsundir fjölskyldna í landinu. Það er gert vegna þess að þjóðin hefur ekki, síðan löngu fyrir þarsíðustu aldamót, séð það svartara og hér hefur skapast alvarlegt og mjög óvenjulegt ástand sem bregðast þarf við með óvenjulegum aðgerðum.

Hér hefur orðið stórslys og þá duga ekki plástrar. Mestu máli skiptir að koma í veg fyrir frekari slys, en huga þarf að slösuðum, veita þeim fyrstu hjálp og koma þeim undir læknishendur. Þá fyrst er rétti tíminn til þess að sópa saman glerbrotum og hreinsa til á vettvangi og að lokum að reyna að átta sig á því hvað gerðist. Þessi forgangsröðun virðist hafa vafist fyrir mörgum sem ættu að hafa tekið stjórnina á vettvangi og höfðu í raun það hlutverk. Vettvangsstjórarnir, veifandi plástrum, hafa verið uppteknir við að bera hver annan sökum, ákveða hver þeirra á að hringja á sjúkrabíl og einhverjir eru farnir að sópa saman glerbrotum á meðan sjúklingarnir liggja stórslasaðir. Líf sumra þeirra er að fjara út og margir eru enn í lífshættu.

Framsóknarmenn hafa staðið á hliðarlínunni undanfarið með vaska sveit ungra, metnaðarfullra og óþreyttra liðsmanna og gott eitt lagt til. Fyrst var frumvarpið um stjórnlagaþing til að koma á starfhæfu og lýðræðislegu stjórnkerfi og svo nú tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum sem einmitt eru til þess ætlaðar að koma í veg fyrir frekara slys. En vettvangsstjórarnir standa enn og veifa plástrunum sínum. Ekki er búið að tryggja slysstaðinn og frekari slys eru yfirvofandi.

Hér er gert ráð fyrir almennum uppbyggingaraðgerðum, svo sem að vextir verði lækkaðir, samið verði við erlenda eigendur krónubréfa, lokið verði við stofnun nýju bankanna, að farið verði í sameiningu og endurskipulagningu banka og fjármálastofnana, að lögð verði drög að fjárlögum til ársins 2012, að komið verði á samráðsvettvangi með útflutningsfyrirtækjum og atvinnugreinum, að stimpilgjöld verði afnumin, að ráðist verði í aðgerðir til að örva fasteignamarkaðinn og fleira mætti nefna í þeim dúr.

Til viðbótar er einnig um að ræða aðgerðir sem varða niðurfellingu skulda um 20%. Það er til að koma í veg fyrir að snjóflóðið fari af stað. Hengjan er að bresta og það vita þeir sem séð hafa til snjóflóða að þau verða ekki stoppuð í miðri brekku. Sértækar aðgerðir um skoðun á hverju einasta máli, hverri einustu fjölskyldu og hverju einasta fyrirtæki í landinu eru ekki í boði. Við höfum ekki þann tíma. Þeir sem gerst til þekkja fullyrða að það muni taka allt að tvö ár að meta þau mál sem nú þegar eru mæld í metrum og kílóum en ekki stykkjum. Hér er um að ræða lausn sem kemur í veg fyrir að hengjan bresti. Fari hún af stað tekur hún miklu meira með sér og sogar til sín miklu meira en óhætt er að taka áhættu með og meira en verja þarf til að koma í veg fyrir flóðið. Sem betur fer bætast fleiri og fleiri virtir hagfræðingar, sem hafa kynnt sér þessar tillögur vandlega, í hóp þeirra sem taka undir þær. Ég verð að viðurkenna að ég varð að lesa þær aftur og oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, horfa á þær í samhengi og máta þær við fyrirliggjandi upplýsingar um ástandið til að sjá mikilvægi þeirra.

Nú ber svo við að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru staddir hérlendis fyrir skemmstu til að meta efnahagsástandið og hvernig ríkisstjórninni hefur tekist til með fyrirætlanir sínar. Á fundi með formanni Framsóknarflokksins og fleirum lýstu þeir mikilli ánægju með þessar tillögur. Ekki síst vegna þess að þær eru raunhæfar og framkvæmanlegar. Aðrar tillögur sem gera sama gagn hafa ekki komið fram þó að þjóðin hafi beðið svo mánuðum skiptir. Það er reyndar undarlegt að talsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi skipt um skoðun áður en hann veifaði bless á þeim forsendum að hann yrði að styðja sitjandi ríkisstjórn án þess að greiða annan hluta lánsins frá sjóðnum. Sögunni fylgdi að enn stæðu nokkur tæknileg atriðið út af borðinu. Í viðræðum í þinginu í gær upplýsti hæstv. fjármálaráðherra að eitt þessara atriða væri skuldastaða ríkissjóðs. Maður veltir því þá fyrir sér hvort það geti verið að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar sem beðið er eftir, og beðið og beðið, geti verið ástæða þess að annan hluta lánsins vantar enn þá og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn treysti sér ekki til þess að afhenda núverandi stjórnvöldum þennan hluta og hugsanlega dregst það fram yfir kosningar. Getur verið að hugmyndaskortur ríkisstjórnarinnar og sú staðreynd að hugmyndum okkar framsóknarmanna hefur verið hafnað án þess að lögð séu fram gild rök verði þessari þjóð að falli?

Sértækar aðgerðir og skoðun á hverju máli fyrir sig er ekki tæk leið. Menn hafa ekki þann tíma sem til þarf. Hættuástandið brast á í nóvember og fjölskyldurnar og fyrirtækin geta ekki beðið lengur. Stundum þarf að aflima fólk sem hefur veikst og slasast. Ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við það að sjúklingurinn deyr ef ekki verður ráðist í raunverulegar og róttækar aðgerðir strax til að koma í veg fyrir frekara slys. Sjúklingur sem verið er að beita hjartahnoði á vettvangi hefur ekkert gagn af því ef 18 hjóla trukkur ekur yfir hann á meðan á björgunaraðgerðum stendur.

Ljóst er að þessar aðgerðir eru aðeins fyrsta skrefið í viðamiklum og róttækum aðgerðum sem ráðast þarf í, ekki seinna en strax.