136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög myndlíkingarík ræða og af því að Framsóknarflokkurinn er nú guðfaðir ríkisstjórnarinnar hlýtur hann náttúrlega að bera ábyrgð á henni.

Hv. þingmaður líkti þessu við slys. Við skulum hugsa okkur að þrír lendi í slysi og að þrír aðstoðarmenn eða hjálparmenn séu á staðnum í hjálparsveitinni og fimm áhorfendur. Það sem Framsóknarflokkurinn ætlar að gera er að skófla öllu liðinu á sjúkrahús, láta skera af þeim lappirnar o.s.frv. Ég veit ekki hvort það er mjög gáfulegt.

Hv. þingmaður sagði líka að það sem stæði í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum væri skuldastaða ríkissjóðs. Samt er hér verið að leggja til að skuldastaðan verði aukin, með Íbúðalánasjóði og öðru, upp á hundruð milljarða. Halda menn að það standi ekki dálítið í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum?

Svo er það spurning hvenær þetta á að taka gildi. Spurningin er sú hvort að einhver maður geti nú farið í banka, tekið 100 millj. kr. lán, lagt það inn á bankabók, sem er sett að veði fyrir láninu og það alveg gulltryggt, og fengið 20 millj. kr. afslátt af öllu saman.