136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:34]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil lýsa furðu minni á því að við skulum vera að ræða átján tillögur Framsóknarflokksins, um úrbætur á vanda heimila og fyrirtækja, og hér séu einungis fimm þingmenn í salnum.

Ég auglýsi eftir þingmönnum Samfylkingarinnar sem hafa á bloggi, í blaðagreinum, í sjónvarps- og útvarpsviðtölum gagnrýnt þessar tillögur. Ég vil eiga orðastað við þingmenn Samfylkingarinnar og í raun og veru þingmenn allra flokka. Við höfum kallað eftir heildstæðri stefnu þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Hvaða stefnu hafa þeir? Það þýðir ekki að gagnrýna án þess að segja neitt annað.

Ég fer þess því á leit, hæstv. forseti, að þingmönnum í efnahags- og skattanefnd eða öðrum þingmönnum verði gerð grein fyrir því að hér fer fram mjög mikilvæg umræða um málefni heimilanna og málefni fyrirtækjanna. Ég geri einfaldlega þá kröfu að betur sé mætt í þingsal þegar slík umræða fer fram en svo að hér sitji einungis fimm þingmenn.