136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs. Þetta eru á margan hátt mjög góðar tillögur, ég get tekið undir það.

Reyndar hefur verið farið í heilmikið af aðgerðum í allt haust. Fyrrverandi forsætisráðherra, hv. þm. Geir H. Haarde, nefndi hundrað punkta sem farið hefði verið í á hundrað dögum. Þannig að mikið hefur áunnist í þessum efnum og skal ekki vanvirða það. Búið er að setja lög um greiðsluaðlögun lána, lög um mildilega aðför að skuldurum sem lenda í vandræðum o.s.frv. Ég ætla ekki að telja það allt upp.

En hér hefur einn þingflokkur, Framsóknarflokkurinn, lagt á sig mikla vinnu við að koma með tillögur og þær eru margar alveg umræðuhæfar. Þeir kvarta reyndar yfir því að ríkisstjórnin hafi lítið gert en þeir eru nú guðfeður hennar þannig að þeir bera að því leyti ábyrgð á henni. Ég hugsa að þessi ríkisstjórn hefði aldrei verið mynduð nema vegna þess að Framsóknarflokkurinn stakk upp á því.

„1. Vextir verði lækkaðir í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.“ — Ég held að þetta sé alveg sjálfgefið. Ég held að verðbólga muni lækka það mikið. Ég nefndi það í ræðu fyrr í dag að verðbólguhraðinn var tæplega 30% í október, 20% í nóvember —þetta er nú samkvæmt minni — aftur 20% í desember og svo 7% í janúar. Verðbólguhraðinn í febrúar var 6% og ég reikna með því að um næstu mánaðamót verði hann 3%. Þannig að verðbólguhraðinn fer mjög hratt lækkandi. Gengisvísitalan hefur líka þróast mjög vel. Gengið var byrjað að falla fyrir ríkisstjórnarskiptin og hefur reyndar hækkað mikið síðustu tvo daga vegna þess að ein greiðsla á jöklabréfunum er í dag, það þarf að borga út 5 milljarða. En svo kemur útflutningurinn og bjargar þessu við á næstu dögum þannig að gengið mun aftur styrkjast. Það þýðir að verðbólgan lækkar, verðtryggðu lánin jafnvel lækka. Ég hugsa að það verði verðhjöðnun og erlendu gengistryggðu lánin verða bærilegri, þau voru orðin gjörsamlega óbærileg. Ég reikna með því fastlega að stýrivextir verði lækkaðir. Þeir voru réttir í verðbólgunni þegar verst lét en eru nú orðnir mjög háir, raunvextir. Ég reikna með því að þeir verði lækkaðir niður í 8% eða 10% og jafnvel neðar en það við næstu ákvörðun, annað væri skrýtið.

„2. Lífeyrissjóðum verði veitt heimild til gjaldeyrisviðskipta.“ — Ég sé nú ekki alveg þörfina á því en ég held að það sé ágætt fyrir lífeyrissjóðina að hafa átt þessar erlendu eignir þó að þær hafi að einhverju leyti hrunið með verðbréfahruninu út um allan heim.

„3. Samið verði við erlenda eigendur krónueigna.“ — Það er verið að reyna að gera þetta en þetta er mjög erfitt vegna þess að það eru sennilega um tugþúsundir aðila sem eiga bréfin þó það séu stórir aðilar sem sjá um þau, stórir bankar. Þetta er skynsamlegt.

„4. Settur verði á fót uppboðsmarkaður með krónur.“ — Strax eftir hrunið lagði ég til að tekið yrði upp tvöfalt gengi, annars vegar vöruskiptagengi og hins vegar uppboðsgengi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði þvert nei við því. Ég lagði þetta til formlega við Seðlabankann en það var sagt þvert nei við því. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykkir ekki tvöfalt gengi þannig að sá draumur er úti. (Gripið fram í.) Ég reyndi þetta, en það getur vel verið að Framsóknarflokkurinn sé öflugri.

„5. Lokið verði við stofnun nýju bankanna fyrir 1. apríl 2009.“ — Þetta er náttúrlega spurning um hvað menn geta unnið hratt og hve vel gengur að meta þessar eignir og alveg sérstaklega hve vel gengur að mynda þennan sjóð sem menn ætla að ganga í og ausa úr, þ.e. varasjóðinn fyrir kröfunum.

„6. Kröfuhafar fái hlut í nýju bönkunum.“ — Þeir vilja það ekki. Bankar í Evrópu vilja ekki hlutafé í banka á Íslandi. Þeir vilja ekki eignast hlut í nýju bönkunum. Ég held að það hafi á það reynt. (KVM: Af er það sem áður var.) Það getur vel verið. En í núverandi stöðu er ekki mikill vilji hjá þeim til þess að eignast hlut en þetta þarf kannski að skoða enn frekar.

„7. Unnið verði að sameiningu og endurskipulagningu banka og fjármálastofnana.“ — Það er spurning þegar ríkið á þrjá banka hvort ekki sé hægt að sameina tvo þeirra og kannski sameina einn þeirra við Íbúðalánasjóð o.s.frv. Þannig að ég get alveg tekið undir það.

„8. Ríkið ábyrgist lán til skamms tíma á milli banka.“ og „13. Ríkið verði bakhjarl vegna fjármögnunar útflutnings.“ — Ég hef efasemdir um þetta hvort tveggja. Það er nefnilega ekki á bætandi hvað varðar skuldastöðu og ábyrgðir ríkissjóðs. Menn þurfa að vera mjög varkárir í því að hlaða of miklu á ríkissjóð því að hann hefur takmarkaða getu og við skulum reyna að halda honum tiltölulega hreinum.

„9. Peningamagn í umferð verði aukið.“ — Það er kannski ágætt að dæla út einhverjum peningum en ég held að sparnaðarviljinn sé orðinn svo mikill hjá þjóðinni og eyðslugleðin svo lítil að erfitt verði að koma því í gang aftur. Enda sé ég ekki alveg tilgang með því, því að það er mjög gott að hafa minni innflutning en verið hefur.

„10. Veitt verði heimild til skráningar hlutafjár í erlendri mynt.“ — Þetta er eflaust gott en ég sé það ekki sem meginmál.

„11. Gerð verði drög að fjárlögum til ársins 2012.“ — Þetta er mjög gott og þyrfti endilega að gera, óháð þessari kreppu. Það er ekki verra núna að almenningur og allir viti hvað ríkissjóður skuldar.

„12. Komið verði á fót samráðsvettvangi með útflutningsfyrirtækjum og atvinnugreinum.“ — Þetta er mjög gott. Þetta er bráðnauðsynlegt og þyrfti að gera meira.

Ég var búinn að ræða 13. liðinn.

„14. Stutt verði við rannsókna- og þróunarstarf.“ — Þetta er ágætt en ég hef alltaf trú á því að nýsköpunin spretti af sjálfu sér hjá einstaklingum og opinberir aðilar geti ekki stuðlað að nýsköpun.

„15. Fasteignamarkaðurinn verði örvaður.“ — Eflaust er hægt að gera ýmislegt þar og þyrfti kannski að gera til þess að koma honum í gang aftur en það er náttúrlega gífurlegur fjöldi af íbúðum sem er til sölu.

„16. Stimpilgjöld verði afnumin.“ — Ég hef löngum lagt til að stimpilgjöldin verði afnumin þannig að það er ljúfur söngur í mínum eyrum.

„17. Skattar verði lagðir á eignir erlendis“ — sem gefa mönnum upp sakir. Þetta var reynt í Suður-Afríku og gafst vel. Hér er bent á að bæði Bretar og Þjóðverjar hafi gert þetta og mér finnst sjálfsagt að prófa þessa leið.

„18. Skuldir verði felldar niður að hluta til bjargar skuldsettum heimilum og fyrirtækjum.“ — Og hefst þá ræða mín, herra forseti. Því miður er mikið liðið á tíma minn. Mér finnst þetta ekki góð tillaga, ég verð að segja eins og er. Eins og ég gat um áðan hefur íbúðaverð lækkað töluvert frá því í október 2007 en fram að því hafði það hækkað óbrotið í fimm, sex eða sjö ár, alveg gífurlega hækkanir og margir búa enn að því. Þeir kannski keyptu íbúð á 20 millj. kr., einbýlishús 2003, og tóku til þess lán. Lánið eiga þeir enn þá, það er kannski 18 millj. kr., en íbúðin fór upp í 50 millj. og hefur lækkað niður í 40 millj. kr. Ef á að fara að lækka þetta lán um 10%, um 2 millj. kr., þá er ég hættur að skilja af því að kaupandinn er enn í dúndurgróða af íbúð sinni.

Því er eins varið með alla þá sem keyptu áður en skiptu svo í þessum toppi, þeir búa enn að hagnaðinum af gömlu íbúðinni. Það er eingöngu þeir aðilar sem keyptu sína fyrstu íbúð á síðustu fjórum árum sem eru að tapa.

Þá vil ég benda á það að úti á landi hefur það viðgengist í áratugi að fólk sem byggði nýtt hús þar — segjum að fjölskylda á Ísafirði hafi byggt nýtt hús fyrir 20 millj. kr. Daginn eftir að þau fluttu inn í húsið var húsið 10 millj. kr. virði og eiginfjárstaðan mínus 10 millj. kr. Þetta hefur viðgengist úti á landi í fjölda ára og enginn sagt múkk. Nú allt í einu á að rjúka til þegar eignir hafa lækkað um 20–30% á Reykjavíkursvæðinu, þá er það orðið eitthvert meginmál.

Herra forseti. Maðurinn sem býr í blokkinni og keypti ekki einbýlishús eins og vinur hans, hann sem keyrir um á litlu dósinni sinni og keypti ekki jeppa fyrir 7 millj. kr. eins og vinur hans, hann sem skuldar núna 1 millj. kr. í staðinn fyrir 100 millj. kr. sem vinurinn skuldar, hann á að fá 200 þús. kall en vinurinn á að fá 20 millj. kr. Ef þetta á að vera réttlæti þá næ ég því ekki. Ég næ ekki svona réttlæti, því miður, herra forseti. (BJJ: Hugsanlegt hámark.) Hugsanlegt hámark, segja menn nú, já, já.

Ég næ því ekki að fara eigi að verðlauna það fólk sem fór sér að voða með eyðslu og bruðli með lækkun á skuldum yfir alla línuna án tillits til þarfa. Og hver borgar? Það er að sjálfsögðu maðurinn í blokkinni, á litlu dósinni. Vegna þess að þetta fellur á skattgreiðendur. Að láta sér detta í hug að erlendir kröfuhafar, sem eru búnir tapa óhemjufé, fari að tapa meiru. Þetta verður á einhvern hátt greitt af íslenskum skattgreiðendum, mun auka skuldbindingu ríkissjóðs og gera enn verra að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um lánafyrirgreiðslu þar sem skuldsetning ríkissjóðs verður allt of mikil. Ég gat ekki verið jákvæður í þessu máli.