136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:54]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er grundvallarmisskilningur hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að þetta komi íslenskum skattgreiðendum við.

Erlendir kröfuhafar tapa á fjárfestingum sínum hér á landi og það er hagur þessara kröfuhafa og þeirra sem ekki skulda, m.a. óskuldsettra heimila sem hv. þingmanni er tíðrætt um, að ráðist verði í aðgerðir til að koma íslenska hagkerfinu aftur af stað og forða fjöldagjaldþrotum. Ef stór hluti fólks mun með sama áframhaldi ekki geta staðið undir fasteignalánum og missir húsnæði sitt mun fasteignaverð hér á landi hrynja. Þá lenda fleiri heimili í vandræðum vegna þess að eigið fé þeirra verður neikvætt.

Við núverandi aðstæður hafa bankar og stjórnvöld hvorki getu né tíma til þess að greiðslumeta hvert einasta heimili í landinu. Ég vil spyrja hv. þingmann að því enn og aftur: Telur hann enga hættu á því sem við framsóknarmenn höfum talið, að kerfishrun geti orðið, verði lítið eða ekkert að gert, ef menn ætla að taka sér hálft til eitt ár til þess að fara inn í bókhald tugþúsunda íslenskra heimila? Það er hagur erlendra kröfuhafa að við forðum því að kreppan verði enn dýpri en raun ber vitni. Það er hagur erlendra kröfuhafa að við grípum strax til aðgerða.

Það er ekki hagur fyrir íslenskt þjóðarbú að hafa stjórnmálamenn sem hafa ekki trú á því að hægt sé að sannfæra erlenda kröfuhafa um það. Ef hæstv. forsætisráðherra er sannfærður um, áður en hann gengur til slíkra viðræðna, að þetta sé ekki hægt skulu menn útiloka það fyrir fram. Þá eru það einfaldlega rangir aðilar — og ég á þá líka við sjálfstæðismenn þar — sem „presentera“ hagsmuni íslensku þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Það eru sameiginlegir hagsmunir erlendra kröfuhafa og almennings (Forseti hringir.) á Íslandi að við forðum frekari kreppu, (Forseti hringir.) enn dýpri kreppu en mögulega getur orðið.