136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur ekki fram í frumvarpinu hvað þessi niðurfelling muni koma til með að kosta. Ég spái því að hún kosti einhver hundruð milljarða. Ef ég hefði hundrað milljarða, herra forseti, mundi ég borga öllum atvinnuleysingjum einar 400 þús. kr. á mánuði, öllum, 20 þúsund manns, ráða þá alla í vinnu í heilt ár. Það yrði miklu betri aðgerð. Ef ég ætlaði mér að nota hundrað milljarða til einhvers mundi ég gera það þannig. Þá mundi ég ráða 20 þúsund manns í vinnu, borga þeim fimm milljónir hverjum og það eru 100 milljarðar. Það er miklu skynsamlegra. Þá er ég búinn að ráðast að rótum vandans og þetta fólk getur þá borgað.

Að lækka skuldir allra Íslendinga „holt og bolt “ yfir línuna, fyrirtækja jafnt sem einstaklinga, það líst mér ekki á, fyrir utan það að verið er að mismuna þeim sem voru ráðdeildarsamir, þeir fá ekki neitt, svo ég tali nú ekki um þá sem eru skuldlausir, þeir fá bara ekki baun. Af hverju eru þeir skuldlausir? Af því að þeir keyptu sér ekki einbýlishús eða jeppa. Það er verið að refsa þeim fyrir það, þessum örfáu sem sýndu ráðdeild og hagsýni og tóku ekki áhættu í miklu gleðinni sem greip þjóðina fyrir tveim, þrem árum.

Framsóknarmenn ætla sér að verðlauna þetta fólk og láta sér detta í hug að einhverjir erlendir kröfuhafar séu tilbúnir til að borga þetta. Ef þeir vilja borga það til að setja líf í atvinnulífið, sem gæti verið skynsamlegt, gera þeir það með öðrum hætti eins og t.d. með því að hækka örorkubætur eða með því að ráða alla atvinnuleysingja í vinnu.