136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt við hefðum fengið nóg af stjórnmálamönnum í Seðlabankanum, ég veit því ekki hvernig ég á að taka þessu.

Ég fann margt gott í þessum hugmyndum framsóknarmanna (Gripið fram í: Já, já.) en síðasta tillagan reyndi þvílíkt á þolrif skynsemi minnar að allt brast. Ég hafði ekki þol í að kyngja þeim tillögum.

Við ættum að spyrja kröfuhafa. Hefur Framsóknarflokkurinn spurt kröfuhafana hvort þeir séu tilbúnir að afskrifa kröfurnar um 50% þegar þess þarf greinilega ekki. (Gripið fram í: Það er búið að því.) Það er ekkert búið að því. Þeir eru ekki búnir að samþykkja eitt eða neitt því það eru kröfuhafarnir sem þurfa að samþykkja þessar niðurfellingar. (BJJ: Formenn skilanefndanna hafa talað um það.) Ég vil því spyrja hvort hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafi spurt kröfuhafana hvort þeir séu tilbúnir að borga 100–200 milljarða til Íslendinga með því að lækka skuldir allra Íslendinga, bara eins og þeir leggja sig. Ég er viss um að margir Þjóðverjar myndu gjarnan vilja sjá svoleiðis niðurfellingu líka og Hollendingar eða hvar þeir eru.

Hv. þingmaður sagði að lánasöfnin hefðu verið flutt yfir með afslætti. Þau eru flutt yfir með afslætti vegna þess að menn reikna með því að hluti þeirra greiðist ekki, t.d. Morgunblaðið. Það eru fyrirtæki sem skulda eitthvað og eru gjaldþrota. Vandinn er sá að þau eru gjaldþrota engu að síður. Þó að skuldirnar lækki um 20% þá dygði það ekki neitt. Sú hugljómun að menn geti lækkað um 20% og svo fari allt í gang stenst ekki. Það er miklu skynsamlegra að setja þetta allt í Atvinnuleysistryggingasjóð og ráða fólk á 400 þús. kr. laun á mánuði í stað þess að fara þessa leið. En ég held að hvorugt standist vegna þess að peningar eru bara ekki til. Guð almáttugur hefur ekki látið okkur fá þá enn þá.