136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í greinargerð með tillögunni kemur fram ef ég má lesa hana, með leyfi herra forseta:

„Þegar tillaga þessi er lögð fram á Alþingi er liðinn rúmlega einn mánuður frá því að minnihlutaríkisstjórnin tók til starfa og telja framsóknarmenn að ríkisstjórnin hafi ekki ráðist í þær nauðsynlegu og aðkallandi aðgerðir sem voru forsendur þess að ríkisstjórnin var mynduð með atbeina Framsóknarflokksins.“

Í ræðu hv. þingmanns kom fram að hann var mjög óhress með það aðgerðaleysi og að ríkisstjórnin geri bara ekki neitt, (Gripið fram í.) eða mjög lítið. Hún er hefur komið einum seðlabankastjóra frá og búið er að gera svona eitt og annað en ekkert til að bjarga heimilunum í landinu. Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann beri ekki bara upp vantrauststillögu á ríkisstjórnina á morgun.