136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:13]
Horfa

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með andsvar.

Nei, ég tel ekki efni til þess að koma með vantraust á ríkisstjórnina. Við framsóknarmenn höfum heitið því að verja ríkisstjórnina vantrausti og við stöndum við það sem við segjum. (PHB: Þó að hún standi ekki við sitt?)

Hins vegar höfum við allan rétt til þess að gagnrýna ríkisstjórnina eins og okkur sýnist þurfa. Það sem kom fram í máli mínu var að ég tel að því miður hafi ríkisstjórnin ekki, a.m.k. enn þá, ráðist í nægjanlegar aðgerðir til þess að taka á vandanum. Ég tók líka fram í ræðu minni að vissulega væri búið að gera ýmislegt í sjálfu sér. Við vitum að ýmislegt er búið að gera, en okkur þykir ekki nóg að gert. Við lögðum mikla áherslu á það þegar ríkisstjórnin var mynduð, og við komum að því með því að heita stuðningi eða verja vantrausti, að ráðist yrði í aðgerðir, alvöruaðgerðir, í þágu heimila og fyrirtækja. Við förum ekkert ofan af því. Það hefur ekkert breyst og við köllum einfaldlega eftir því að ráðist verði í frekari aðgerðir en þegar hefur verið gert. Það er það sem ég á við, hv. þingmaður.