136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:15]
Horfa

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það að segja má að tillögum okkar sé að einhverju leyti sýnd vanvirðing vegna þess að ég hafði átt von á því að hér yrði töluverð umræða um málið, ekki síst að stjórnarliðar kæmu og lýstu skoðunum sínum. Varðandi það að þessi ríkisstjórn hafi ekkert gert held ég, svo alls sannmælis sé gætt, að hún hafi að mörgu leyti staðið sig mun betur en sú fyrri, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal studdi, sem var algerlega komin að fótum fram og hafði haft margar vikur frá því að hrunið varð, en því miður var algert aðgerðaleysi ríkjandi. Ég held að þegar upp verður staðið muni reynast þjóð okkar dýrkeypt hversu máttlaus og sundurleit og verklaus fyrrverandi ríkisstjórn var. Þrátt fyrir allt held ég að ríkisstjórnin sem nú starfar hafi þó tekið betur á málum en sú fyrri. (HSH: Og leggja þau á brjóst.) Jú, jú, en við teljum ekki nóg að gert. Það er málið og við förum ekkert ofan af því.

Varðandi krógann, eins og hv. þingmaður nefndi, er ég a.m.k. þannig gerður að ég vil hlúa að börnum (Forseti hringir.) og leggja mitt af mörkum til að þau dafni og vaxi úr grasi og leggja þau á brjóst. Ég get það reyndar ekki sjálfur en ég get hlúð að þeim, en svona er þetta, virðulegur forseti.

Ég ítreka það að ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þátt í umræðunni. Hann sýnir meiri skilning á málinu en flestir aðrir og á heiður skilið fyrir það og ég þakka honum fyrir hvernig hann fjallaði um ýmsar tillögur og aðgerðir í plagginu þó svo að ég skilji vel að hann sé ekki nákvæmlega sammála öllu sem þar stendur.