136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:42]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gagnrýnir allar þessar tillögur og kallar þetta mikinn kosningavíxil. (GMJ: Hvað kostar þetta?) Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að þingmenn Frjálslynda flokksins ræddu hér um frystingu verðtryggingarinnar fyrr í dag: Hvað kosta þær tillögur?

Það sem við erum að gera ráð fyrir með 20% niðurfellingu er að færa lánin til samræmis við hækkun verðbólgu síðustu 18 mánaða. Hver er munurinn á slíku? Ég spyr hv. þingmann: Hvað kosta þær tillögur sem Frjálslyndi flokkurinn var að enda við að mæla fyrir hér í dag?

Mér þykir miður að formaður Frjálslynda flokksins skuli ekki vera hér við þessa umræðu því að hann er mun málefnalegri en þeir tveir þingmenn flokksins sem hafa tekið þátt í umræðunni, sem hafa kallað þessar tillögur bull og þvælu. Hv. þm. Karl V. Matthíasson sagði að þær væru jafnvel svo vitlausar að ekki dytti nokkrum manni í hug að tjá sig um þær. Ég spyr: Á hvaða plani eru hv. þingmenn Frjálslynda flokksins? Þetta er þeim einfaldlega ekki til sóma þegar við erum hér í efnislegri umræðu um bráðavanda heimila og fyrirtækja og ég vil lýsa yfir sérstakri ánægju með það að hæstv. fjármálaráðherra skuli vera kominn í þingsalinn, væntanlega til að taka þátt í þessari umræðu.

Við þingmenn Framsóknarflokksins höfum talað fyrir því að við þurfum að ná samstöðu á vettvangi Alþingis um að greiða fyrir góðum málum. Ég fer ekkert ofan af því að hv. þingmaður getur ekki komið hér upp og gagnrýnt og sagt að það sé þvæla og bull og vitleysa sem hagfræðingar, stærðfræðingar og aðrir sérfræðingar í íslensku samfélagi hafi komið að á undangengnum vikum. Hv. þingmaður getur einfaldlega ekki leyft sér að koma hér upp og dæma allar þessar 18 efnahagstillögur Framsóknarflokksins, sem sumar kosta ekki krónu heldur eru einungis til hagsbóta fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Ég bið hv. þingmann að gæta orða sinna (Forseti hringir.) þegar hann fellir stóra dóma um þær tillögur sem við ræðum hér og ég bið hann líka (Forseti hringir.) um að kynna sér þær betur en hann hefur gert.