136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:45]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef bersýnilega komið við einhverjar taugar (BJJ: Nei, nei, nei.) í hv. þm. Birki Jóni Jónssyni þegar ég sagði að bróðurparturinn af þessu væri bull og þvæla og ekki væri hægt að nota þetta til eins eða neins. Þetta bjargar ekki fjölskyldunum í landinu, þetta hjálpar ekki fyrirtækjunum í landinu og svo á eftir að skýra það út hvað þetta kostar og hvaðan á að taka peninga til þessara gjörninga.

Ef það er eitthvað í þessu sem kostar ekkert til hvers er þá verið að hafa það? Það er málið. Það er nefnilega málið að ef þú ætlar að lækka skuldir á einstaklingum eða fyrirtækjum þá kostar það peninga. (BJJ: Þið leggið það til sjálfir.) Við höfum lagt til að lækka verðtryggingu lána. (BJJ: Kostar það ekki?) Það kostar. En við gerum ráð fyrir því að ný ríkisstjórn, sem tekur væntanlega við eftir 25. apríl, fái svigrúm og tækifæri til þess að vinna að lausnum og útfærslu á því hvernig á að gera það.

En í þessu plaggi eru ekki til neinir peningar og þess er ekki getið í tillögunni hvað þetta kostar. Þær upplýsingar eru ekki til staðar. Og þegar menn eru að hæla sé af því að þeir séu með hagfræðinga, stærðfræðinga og lögfræðinga í vinnu við að reyna að útfæra þetta og gera þetta á vitrænan hátt þá er lágmarkskrafa að eitthvað sé sagt um (BJJ: Kynntu þér málið.) það hvernig eigi að borga brúsann og hvernig eigi að gera þetta. En það er bersýnilega ekkert lagt til í því.

Það er heldur ekki verið að tala um hvort ekki megi nýta auðlindir þjóðarinnar betur en gert hefur verið heldur er bara verið að leggja til einhverjar svona barbabrellur af ódýrustu tegund um að skera niður 20% af skuldum heimilanna í landinu án þess að segja hvaðan taka eigi peningana og það er auðvitað það sem er að í þessari þingsályktunartillögu.