136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:53]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er víst dapurleg framkoma að menn skuli voga sér að gagnrýna þessa ágætu þingsályktunartillögu framsóknarmanna. Við höfum lagt til að verðtryggingin verði ekki hærri en 5% og búinn verði til sjóður sem mismunurinn á verðtryggingunni fer í og næsta ríkisstjórn hafi til þess ákveðinn tíma. (VS: Hvað kostar það?) Það kostar verulegar upphæðir, það er ljóst. En það er ekki ljóst hvernig — það er ekki verið að skera niður af öllum jafnt. Það er ekki verið að tala um það. Það er verið að tala um að hjálpa þeim sem standa illa og útfærsluleiðirnar eru margar til. Það þarf ekki bara að nefna eina.

En það sem við erum að leggja til, til að hjálpa okkur út úr þeirri kreppu sem við erum í, er að nýta auðlindir þjóðarinnar betur. Við höfum verið hér með tillögu um að innkalla allar veiðiheimildirnar til ríkissjóðs og leigja þær út. Við höfum verið að tala um að afla tekna úr hafinu fyrir 80 milljarða í viðbót. Við höfum verið að tala um að nýta aðrar auðlindir eins og fallvötnin okkar og orkuna í iðrum jarðar til þess að skapa atvinnutækifæri og möguleika. Þessu höfum við verið að hamra á alveg frá því í haust. Við höfum lagt til fleiri leiðir til að hjálpa fólki út úr þessu atvinnuleysi eins og frjálsar handfæraveiðar og ýmislegt, nýta betur þann afla sem við erum að veiða og annað eftir því.

Þið þekkið allar þær tillögur sem við höfum flutt varðandi nýtingu í sjávarútvegi. Þið þekkið líka tillögur okkar varðandi virkjanir. Við höfum stutt bæði álver í Helguvík og álver á Bakka. Við þurfum að virkja auðlindirnar til þess að geta skapað verðmæti. (Forseti hringir.)