136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:07]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Þá liggur ljóst fyrir að þingflokkur Frjálslynda flokksins leggst gegn þeim 18 tillögum sem við framsóknarmenn höfum lagt fram til að koma til móts við vanda heimila og fyrirtækja. Hann hefur lýst yfir andstöðu sinni við það, einn stjórnmálaflokka á Alþingi. Reyndar sýnist sitt hverjum um einstakar tillögur og hæstv. fjármálaráðherra hefur til að mynda lagst gegn tillögum okkar um 20% niðurfærsluna en mér er til efs að hæstv. fjármálaráðherra muni koma upp á eftir og dæma allar þessar tillögur dauðar og ómerkar. Ég hugsa að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins verði einir um þá umræðu hér, enda erum við að reyna að koma fram með góð mál til að koma til móts við vanda heimila og fyrirtækja.

Ég vil í seinna andsvari mínu spyrja hv. þingmann hvað þingflokkur Frjálslynda flokksins hafi lagt af mörkum til að koma til móts við þá erfiðu stöðu sem nú er uppi.

Hv. þingmaður hló að því að við framsóknarmenn legðum til að hafin yrði lækkun á stýrivöxtum hið fyrsta. Það eru ekki orðin tóm. Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur átt fundi með forsvarsmönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem við höfum lagt fram greinargerð með rökstuðningi okkar færustu sérfræðinga — sem hv. þingmaður hefur gagnrýnt — um af hverju við eigum að fara í og af hverju við getum nú þegar farið í lækkun á stýrivöxtum.

Ég spyr hv. þingmann: Hefur Frjálslyndi flokkurinn óskað eftir einhverjum viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Við þurfum að tala máli Íslands í þeim viðræðum. Menn þurfa að leggja sig fram. Við höfum lagt mikla vinnu í að rökstyðja af hverju við eigum að ráðast nú þegar í lækkun á stýrivöxtum. Ég spyr hv. þingmann hvort einhverjir af forustumönnum Frjálslynda flokksins hafi rætt við fulltrúa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hverjar efnahagstillögur Frjálslynda flokksins eru og hvort þær sé einhvers staðar (Forseti hringir.) að finna í heildstæðum pakka líkt og við framsóknarmenn mælum fyrir hér.