136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einhver misskilningur hjá hv. þingmanni. Ég var ekki að kvarta undan því að hann hefði ekki kynnt sér þessi gögn heldur hvetja hann til þess að gera það. Hér hafa verið umræður utan dagskrár um einmitt stöðu efnahagslífsins, atvinnuástandið og margt fleira á undanförnum dögum og vikum. Ég held að þingið geti ekki kvartað undan því að þeir hlutir hafi ekki komið hér til umræðu.

Það sem við vorum að gera í dag var hlutur sem við lofuðum þjóðinni, að taka saman eins staðgóðar upplýsingar og fáanlegar væru um horfur og stöðu eins og hún kemur okkur núna fyrir sjónir — þeir hlutir eru að vísu að breytast, nýjar tölur og ný gögn koma svo að segja vikulega — og kynna þær fjölmiðlum þannig að þeir gætu orðið milliliður fyrir slíkar upplýsingar út í þjóðfélagið. Það er íslenska þjóðin sem þar er verið að hugsa um, að segja henni satt, að segja henni undanbragðalaust hvernig staðan er. Ekki til að draga úr henni kjarkinn, ekki til að mönnum fallist hendur heldur til þess að menn bara viti hvernig hlutirnir standa og hvert verkefnið er sem fram undan er, að rífa Ísland í gegnum þessa erfiðleika og fara að byggja það upp á nýjan leik.

Ég verð svo bara aftur að segja og enn um þessar niðurfellingarhugmyndir varðandi skuldir: Menn geta ekki gleymt í þessu dæmi þeim aðilum sem engar niðurfærslur hafa fengið á einhverjum lánasöfnum frá öðrum, t.d. lífeyrissjóðirnir með 150–170 milljarða í íbúðalánum, sparisjóðirnir og önnur sjálfstætt starfandi fyrirtæki með umtalsverðar upphæðir og Íbúðalánasjóður með hátt í 600 milljarða, opinberir og hálfopinberir aðilar. Það eru útlánin til heimila og útlánin til fyrirtækja sem hér er verið að tala um að afskrifa. Það er auðvitað ekki þannig að lánasöfn hafi færst úr gömlu bönkunum yfir í nýja og hvert einasta lán hafi verið fært niður um einhverjar prósentur, það er mikill misskilningur. Þar er gert ráð fyrir að sum lán tapist jafnvel alveg en önnur séu borguð að fullu þannig að þá yrði niðurskrift á lánum sem þetta mat gerir ráð fyrir að greiðist að fullu. Þann reikning verður alltaf að borga. Ég skil ekki þá hagfræði, ef hagfræði skyldi kalla, (Forseti hringir.) að það sé hægt með nánast einhverjum töfrakúnstum (Forseti hringir.) að láta skuldir hverfa.