136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé út af fyrir sig rétt athugað hjá hv. þingmanni að það er kannski ekki heppilegt orðalag að tala um að skattar verði lagðir á eignir erlendis því að þar held ég að möguleikar okkar séu takmarkaðir. En það er hægt að ná utan um það ef rekstur íslenskra skattaðila í dótturfélögum erlendis kemur ekki til eðlilegrar skattlagningar á Íslandi og það er gert með þessum svokölluðu CFC-reglum sem ég gerði hér aðeins grein fyrir.

Það undarlega er að andvaraleysi íslenskra stjórnvalda í þessum efnum á undanförnum árum hefur fyrst og fremst leitt það eitt af sér að erlendir aðilar hafa fengið skattana en ekki við, þ.e. þetta virkar þannig, og reyndar eins í tilviki afdráttarskatta á vöxtum, að í sumum tilvikum eru tvísköttunarsamningar í gildi og þá falla skattarnir niður. Í öðrum tilvikum er þetta þannig að þeir skattar sem þá eru greiddir á Íslandi koma til frádráttar skattgreiðslunum erlendis. Þannig að það eina sem gerist við breytinguna er að við fáum tekjurnar en ekki hið erlenda ríki eða lágskattasvæði þar sem starfsemin er, (Gripið fram í.) af fyrirtækjunum og tekjum þeirra. Það er gert með því að skattleggja móðuraðilann í heimalandinu og þá er þetta hlutfallsleg skattlagning þannig að ef dótturfyrirtæki er í 100% eigu skattaðilans þá skal það borga fullan skatt af starfsemi þess hér. Ef það er í hlutaeigu hans þá skal hann borga hlutfallslegan skatt.

Að lokum snýst þetta allt um það að við fáum eðlilegan skatt af þeirri atvinnustarfsemi sem hér er staðsett, sem hér er með skattalegt heimili, og þetta er allt samkvæmt alþjóðlegum, viðurkenndum reglum og oftast á grundvelli samninga milli ríkjanna. Það er ekki eins og við séum að fara einhverjar ótroðnar slóðir eða gera eitthvað sem við ekki megum heldur þvert á móti. Í einstöku tilvikum, og það er fyrst og fremst í skattaskjólunum, mundi þetta þýða skattaaukningu á viðkomandi aðila. En oftast á það ekki við þar sem skattarnir sem hér eru greiddir dragast einfaldlega frá því sem greitt er erlendis.