136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þá liði sem ég hafði ekki tíma til að fara yfir þá má t.d. nefna þann lið að peningamagn í umferð verði aukið. Þetta er hagstjórnarlegt spursmál sem auðvitað má ræða. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé okkar mesta vandamál um þessar mundir að komið verði á fót samráðsvettvangi með útflutningsfyrirtækjum og atvinnugreinum, eins og minnst er á 12. lið en að sjálfsögðu má skoða það. Auðvitað er margs konar samráð til staðar. Ríkisstjórnin hefur samráð við aðila vinnumarkaðarins og við hagsmunasamtök, fundar með þeim o.s.frv.

Að fasteignamarkaðurinn verði örvaður. Já, menn hafa vissulega velt möguleikum fyrir sér í þeim efnum en væri það t.d. skynsamleg aðgerð að fara að hækka núna lánshlutfall eða hækka lágmarkslánaupphæðir hjá Íbúðalánasjóði? Hvernig mundi Íbúðalánasjóði ganga að fjármagna það? Það mundi væntanlega þýða aukin útgjöld. Væri það endilega heppilegasta aðgerðin til að koma þar við sögu?

Það er að mörgu að hyggja í þessum efnum og þar á meðal hinni viðkvæmu stöðu á íslenskum skuldabréfamarkaði vegna mikillar fjármögnunarþarfar ríkissjóðs og sveitarfélaga hér innan lands af alkunnum ástæðum og þar fram eftir götunum.

Hvað kosta þessar tillögur og hugmyndir varðandi stórfellda niðurfellingu og almenna niðurfellingu skulda? Í tilviki Íbúðalánasjóðs er augljóst mál að leggja yrði honum til stóraukið eigið fé, annars mundi hann ekki uppfylla kröfur um að lágmarki 5% eiginfjárhlutfall ef ég man það rétt. Hann hefur lægra hlutfall en ýmsar fjármálastofnanir vegna þess að hann er með beina ríkisábyrgð.

Í tilviki lífeyrissjóða mundu þeir verða að skerða réttindi. Það er bara ósköp einfaldlega þannig. Menn skulu ekki gleyma því að í því greiðsluaðlögunarferli sem nú er fyrirhugað — annars vegar gagnvart samningskröfum og hins vegar gagnvart fasteignaveðlánum, og vonandi birtist hér á borðum þingmanna ekki seinna en morgun — er gert ráð fyrir mögulegri niðurfellingu eða afskrift skulda í lok greiðsluaðlögunartímans. En það verður þá bara sannarlega hjá þeim sem þurfa á slíku að halda, hjá þeim sem ekki munu ráða við sitt dæmi að afloknu greiðsluaðlögunartímabilinu nema með einhverri afskrift skulda. Þá er sá farvegur opinn en hann er vel skilgreindur. Hann er afmarkaður, hnitmiðaður og beinist að þeim sem sannarlega þurfa á slíku að halda.