136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

endurskoðun samgönguáætlunar og framkvæmdir á Hellisheiði.

[13:39]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um hvað líði endurskoðun á tólf ára samgönguáætlun og fjögurra ára samgönguáætlun.

Við vitum að miklar breytingar hafa orðið í samfélaginu og búast má við einhverri endurröðun og endurskoðun einmitt á þessum málaflokki. Þar sem hæstv. samgönguráðherra hefur setið frá síðustu kosningum, vorkosningum 2007, hlýtur hann að hafa glögga yfirsýn yfir það og hafa undirbúið einmitt þau mál og geta svarað til um endurskoðun þessara áætlana.

Ég vil jafnframt, herra forseti, spyrja ráðherrann að því hvað líði framkvæmdum með Hellisheiðarveg, en í síðustu samgönguáætlun í mars 2007 var samþykkt að fara í tvo plús tvo veg. Þáverandi samgönguráðherra Sturla Böðvarsson ritaði Vegagerð ríkisins bréf í apríl 2007 þar sem Vegagerðinni var falið að hefjast handa með framkvæmdina. Hvernig líður henni? Á hvaða stigi er hún? Má vænta þess að hafist verði handa á yfirstandandi ári?