136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

endurskoðun samgönguáætlunar og framkvæmdir á Hellisheiði.

[13:41]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Sem svar við þessari spurningu má taka undir það sem kom fram og var aðalatriði í málflutningi hv. þingmanns, að miklar breytingar hafa svo sannarlega átt sér stað í þjóðfélaginu og þær krefjast endurskoðunar og endurröðunar á mjög mörgum sviðum þjóðfélagsins ef ekki öllum, þar á meðal í samgönguáætlun.

Hv. þingmaður spyr hvað líður endurskoðun tólf ára samgönguáætlunar, sem hefur ekki verið til og ekki samþykkt. Sú vinna er komin í gang og er verið að vinna á vegum samgönguráðs. Með fjögurra ára áætlunina, gerist það auðvitað líka og er að sjálfsögðu í endurskoðun en hún bíður nýrrar ríkisstjórnar og verður lögð fram fyrir þau ár sem á að bæta við í stuttu áætlunina á komandi haustþingi.

Við vinnum nú eftir þeirri áætlun sem er um 2009 og þeim framkvæmdum sem þar voru settar inn. Þó svo að þær nái ekki allar inn vegna þess að, eins og hv. þingmaður man, var framlag til samgöngumála skorið niður um 6 milljarða kr. í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Við engin verk verður hætt heldur frestast sum og fara aftar m.a. vegna þess að þau eru ekki tilbúin til framkvæmda út af skipulagsmálum og öðru þess háttar.

Árið 2008 var mesta framkvæmdaár Íslandssögunnar í vegamálum og árið 2009 verður það næstmesta.

Varðandi seinni hluta spurningar hv. þingmanns um — mér heyrðist hann segja — Hellisheiðarveg, sem ég átta mig ekki alveg á hvað er, en geri ráð fyrir að átt sé við Suðurlandsveg allan. Hann spyr hvort líkur séu á að hafist verði handa þar á þessu ári og svarið við því er já.