136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

vinna við fjárlög 2010.

[13:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Að afstöðnum kosningum verður kominn maí og þá fara menn að huga að fjárlögum fyrir árið 2010 og þarf raunar að leggja línuna nú þegar fyrir þeim fjárlögum. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað þeirri vinnu líður og hvernig menn ætli að ná niður þeim halla á ríkissjóði sem gert er ráð fyrir í samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sérstaklega með tilliti til þess að ekki hefur náðst fram sá sparnaður í heilbrigðiskerfinu sem áætlaður var og hæstv. menntamálaráðherra hefur tekið ákvörðun um að byggja tónlistarhús sem kostar mjög mikla peninga. Það eina sem fréttist af hinni nýju ríkisstjórn er í rauninni útgjöld. Spurning mín er sú: Hvernig ætla menn að ná þessum halla niður? Því að halli myndast sem mismunur á tekjum og gjöldum og annaðhvort minnka gjöldin verulega og þá er spurningin: Hvar verður það gert? Eða menn auka tekjurnar og þá er spurningin: Hvernig verður það gert?