136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

vinna við fjárlög 2010.

[13:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er liðið nokkuð á marsmánuð og það þarf að fara að huga að fjárlagagerð næsta árs. Samkvæmt venju er sú vinna þegar komin í gang. Vinna stendur yfir í fjármálaráðuneytinu nákvæmlega með sama hætti og venjan er á þessum árstíma, að leggja drög að slíku. Reyndar er vinnan tvíþætt núna vegna þess að til viðbótar venjulegri undirbúningsvinnu fyrir fjárlög komandi árs er unnið samkvæmt þeirri áætlun sem hv. þingmaður nefndi og byggir á samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þar eru líka unnar áætlanir til svokallaðs meðallangs tíma. Menn eru því ekki bara að undirbúa fjárlagaárið 2010 heldur líka reyna að stilla rammann af fyrir árin þar á eftir til meðallangs tíma, þ.e. áranna 2011, 2012 og 2013. Þessi vinna er öll í gangi náttúrlega samhliða ýmsu öðru sem á fjármálaráðuneytinu mæðir um þessar mundir. Það er ekkert leyndarmál að vinnuálag þar er gríðarlegt, enda hafa þung og mörg verkefni bæst á ráðuneytið umfram það sem hefðbundið er. Þar má m.a. nefna að fara með forræði í samningaviðræðum um Icesave, að semja við erlenda seðlabanka um lán, að endurskipuleggja bankakerfið og fara með eignarhald ríkisins í bönkunum og þar fram eftir götunum. En það er reynt að sinna þessu öllu samtímis og ég held að ég geti fullyrt að sú vinna sé á eðlilegu róli og með vorinu verði menn á þeim stað sem venjan er á þeim árstíma, að drög liggi fyrir og ráðuneyti komi með tillögur sínar um aðgerðir og sparnað.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi að núverandi ríkisstjórn hafi eytt meiri peningum eða dregið úr áformum um sparnað þá er það rangt. Í heilbrigðisráðuneytinu var t.d. gefin út reglugerð um lyfjakostnað sem sparar ríkinu peninga umfram það sem fyrri ríkisstjórn hafði áformað og í tilviki tónlistarhúss er ekki verið að lofa einni einustu krónu í framlög frá ríki umfram það sem fyrri ríkisstjórn var búin að skuldbinda í samstarfi við borgina. Það er nákvæmlega sú upphæð sem þar var ráð fyrir gert sem framkvæmdin hvílir á.