136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[13:50]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Það ber svo vel í veiði að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er jafnframt fjármálaráðherra þannig að það er hægt að fara eina ferð til að fá svar við þessari spurningu.

Erindi mitt hingað er að spyrja hæstv. ráðherra um málefni Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri en starfsemi landbúnaðarháskólans er geysilega mikilvæg fyrir íslenskan landbúnað og þess vegna varðar mjög miklu að háskólinn hafi trausta fjárhagslega umgjörð.

Nú lá það fyrir við afgreiðslu fjárlaga vegna þessa árs að mun meiri fjármuni þyrfti inn í rekstur skólans en fjárlög gera ráð fyrir vegna þeirra breytinga og nýrra verkefna sem skólanum er ætlað að sinna og aukinna útgjalda þess vegna. Því vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hafin sé vinna við að greina vandann og stokka spilin upp í þeim tilgangi að tryggja að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri fái þá fjármuni sem hann þarf til að geta sinnt því mikilsverða og mikilvæga hlutverki sem hann gegnir í landbúnaðinum á Íslandi, í þeirri stóru atvinnugrein. Það skiptir mjög miklu máli að skólinn þurfi ekki að búa við jafnþröngan kost og fjárlög gera ráð fyrir. Það verður að viðurkennast hér að því miður tókst ekki að ljúka þessari vinnu fyrir afgreiðslu fjárlaga. Þess vegna spyr ég hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra hvort á vettvangi ráðuneytanna, og væntanlega í samstarfi við menntamálaráðuneytið, sé hafin vinna í samstarfi við stjórnendur skólans til að tryggja rekstur og starfsemi skólans. (Forseti hringir.)

Fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra gaf yfirlýsingu við afgreiðslu fjárlaga um að það yrði gert og þess vegna spyr ég: Hvar stendur málið?