136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[13:54]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra brá ekki vana sínum að beita meinbægni og tilraunum til að skjóta sér á bak við það að allt sem á eftir að gera í Stjórnarráðinu sé fyrrverandi ríkisstjórn og stjórnarflokkum að kenna. Ég lít svo á að þeir ráðherrar sem taka við hverju sinni taki við þeim pakka sem fyrir liggur. Auðvitað var margt ógert í þessum ráðuneytum og þar á meðal að ljúka þeirri vinnu sem lá fyrir og allir viðurkenndu að þyrfti að vinna. Það þarf að tryggja fjárhagslegan grundvöll Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri sem hafði verið breytt m.a. vegna þess að hann var færður á milli ráðuneyta og ég ætla ekki að kenna fyrrverandi ráðherrum sérstaklega um það. Þarna var í gangi vinna. Mér gengur ekkert annað til en að lýsa yfir vilja til að gera það sem ég get gert á Alþingi í samstarfi við ráðherra, ef um það er að ræða, til að tryggja þessum skólum fjárhagslegan grundvöll, sérstaklega hvað varðar landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Og ég treysti því að þrátt fyrir allt hendi ráðherra sér í þetta verkefni.