136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[13:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður má kalla það meinbægni að fara með staðreyndir. Það er hægt að leggja á borðið staðreyndirnar um það í hvaða stöðu þessir tveir skólar voru við stjórnarskiptin. (StB: Ég gat þess ekki.) Akkúrat, hv. þingmaður viðurkenndi það, nefndi það að þarna hefðu menn skilið eftir óleyst mál og það er úr þeim vanda sem nú er verið að reyna að greiða. Landbúnaðarráðuneytið kemur fyrst og fremst að þessu máli í gegnum rannsóknarsamning sem er alveg frá þeim tíma þegar Rannsóknarstofnun landbúnaðarins rann saman við Hvanneyri. Við höfum verið að fara yfir það að framlengja þann samning og gera á honum breytingar og síðan er að störfum, eins og ég gat um, nefnd fulltrúa þriggja ráðuneyta undir forustu menntamálaráðuneytisins, þ.e. menntamálaráðuneytið, fjármálaráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem setti fulltrúa í nefnd sem eru að skoða stöðu landbúnaðarskólanna sérstaklega og vonandi kemur afrakstur þeirrar vinnu fram í dagsljósið á næstu vikum.