136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

vegaframkvæmdir í Mýrdal.

[14:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Nei. Ég get svarað hæstv. ráðherra að ég hef ekki tekið afstöðu til þess máls en ég er að leita mér upplýsinga um það til að kynna mér það. Ég hef skoðað báðar hliðar og mér finnst báðir aðilar hafa nokkuð til síns máls. En það sem skiptir öllu máli er að heimamenn nái farsælli lausn á þessu máli og ég tek undir með ráðherra að ljúka þurfi verkinu þar.

Ég er ánægð að heyra að hæstv. ráðherra hefur áhuga á málinu og hann hafi sett í gang alla vega þá skoðun sem hann nefnir af hálfu Vegagerðar og Siglingastofnunar og fleiri aðila sem að þessu máli koma. Ég mun fylgjast með framvindu málsins eftir því sem tíminn líður.