136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

vegaframkvæmdir í Mýrdal.

[14:02]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta en ég tek þó undir það sem hv. þingmaður gat um, sem er reyndar grundvallaratriði, að mikilvægt er að reyna að vinna þetta sem mest með heimamönnum og skapa sátt um verkið. Það er aldrei gott þegar deilur verða innan sveitarfélags um hvar vegir skuli liggja. Við höfum fleiri dæmi úr Suðurkjördæmi þar sem því miður er enn þá tekist á um hvar vegur eigi að liggja. Tala ég þar um Hornafjarðarfljót sem ekki hefur komist á framkvæmdaáætlun vegna þess að þar eru deilur.

Við skulum vona að okkur takist að vinna málið áfram með samgöngustofnunum, Vegagerð, Siglingastofnun og öðrum sem að því koma. Ég tek undir með hv. þingmanni að ég tel að nauðsynlegt sé að gera það og reyna að skapa sem mesta sátt og vinna þar með heimamönnum. Að því skulum við vinna.