136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

ferðaþjónusta á Melrakkasléttu.

378. mál
[14:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir góð svör. Mér er málið skylt þegar rifjuð eru upp örnefni og aðstæður á mínum heimaslóðum. Ég þakka þann áhuga sem þessu er sýndur að virkja þær vel varðveittu auðlindir sem segja má að norðausturhornið búi yfir í sambandi við ferðaþjónustu, Melrakkasléttu og Langanes, þar sem eru miklir möguleikar sem kannski lítt hafa nýst mönnum enn þá vegna lélegra samgangna og fjarlægða en eru nú að opnast. Þar eru stórfelldir möguleikar þar sem menn geta lagst á bakið og látið fuglinn verpa upp í sig og sett lófann ofan í læk og veitt upp silung eins og lesa mátti um hér í góðum ritgerðum.

Svo því sé líka til haga haldið er þar hið stórkostlega náttúrufyrirbæri Stóri-Karl undir utanverðu Skoruvíkurbjargi og þar má liggja á maganum á bjargbrúninni og horfa á eina súluvarp sem hægt er að horfa á af landi á Íslandi, sem er sömuleiðis vel varðveittur gimsteinn og á örugglega eftir að nýtast mönnum vel í að draga að ferðamenn.