136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

stuðningur við íslenskan landbúnað.

379. mál
[14:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu og þakka fyrir að hún skuli vera hafin. Almennt má segja að í landbúnaðinum, þrátt fyrir staðbundna og tímabundna erfiðleika, fari fram fjölbreyttari atvinnusköpun en nokkru sinni fyrr.

Ég vil segja almennt um stuðningsfyrirkomulag við landbúnaðinn að ég veit að tiltekin þróun á sér stað á alþjóðlegum vettvangi, WTO, en skoðun mín er sú að við eigum ekki að hverfa frá framleiðslutengingum sem eru núna í stuðningskerfinu við landbúnaðinn. Framleiðslutengingarnar hafa ákveðið hlutverk til að halda uppi atvinnustarfsemi í sveitum og ég held að mjög mikilvægt sé fyrir okkur að reyna að viðhalda því.

Almennt talað um búvörusamningana þá fagna ég þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að halda áfram þeim viðræðum sem ég hafði hafið við forustumenn Bændasamtakanna um fyrirkomulag búvörusamninga. Ég held að mjög mikilvægt sé að reyna að tryggja það að þeir fjármunir sem eru til staðar varðandi búvörusamninga nýtist bændum sem best og komi að mestu leyti til bændanna, þ.e. að þeir fjármunir nýtist sem best við búreksturinn sjálfan.