136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

efling kræklingaræktar.

380. mál
[15:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Nú kannski sem aldrei fyrr þarf að líta til nýrra verkefna sem eflt gætu atvinnulíf okkar Íslendinga. Kræklingarækt er mikil atvinnugrein í Evrópu, árleg neysla kræklings er mjög mikil og nefnd hefur verið talan 2 milljónir tonna. Nú er hins vegar farið að þrengjast um ræktunarsvæði í Evrópu og því eru meiri líkur á að markaðsaðstæður okkar Íslendinga eflist. Í Kanada hefur líka verið unnið markvisst að eflingu kræklingaræktar sem atvinnugreinar og þar hefur náðst góður árangur.

Norður í Eyjafirði og víðar um land hafa einstaklingar lengi reynt að ná tökum á kræklingarækt, margir hafa lagt á sig fórnfúst starf til að ná árangri en framlög hins opinbera hafa hins vegar verið nokkuð takmörkuð í því þróunarferli. Þó hafa verið þróaðar aðferðir við búnað og varnir vegna ræktunarinnar en betur má ef duga skal til að ræktunin geti farið að skila arði og skila okkur störfum.

Þess má líka geta að nú er fram undan hjá Hríseyingum að ráða a.m.k. átta manns til vinnu til viðbótar við þá fimm sem þar eru í vinnu hjá Norðurskel.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur haft þessi mál til athugunar í vetur. Í fyrrahaust fór nefndin vestur á firði og ræddi við aðila sem hafa stundað rannsóknir þar. Í vetur hafa ræktendur komið til nefndarinnar og nú 5. mars sl. komu rannsóknaraðilar og forsvarsmenn rannsóknarsjóða til nefndarinnar. Það er auðvitað ljóst að ýmislegt er óunnið varðandi atvinnugreinina og er það tilefni spurningar minnar til ráðherra, og ekki síður hvort raunverulegur vilji er til staðar í opinbera kerfinu til að veita þessari atvinnugrein þann ramma sem nauðsynlegur er utan um greinina þannig að hún hafi fast land til að standa á.

Það hlýtur því að vera spurning hvort ekki sé komið að því að hið opinbera móti stefnu utan um atvinnugreinina. Nú má segja að það sé komið að nokkrum tímamótum þar sem erlendir aðila hafa sýnt áhuga á að koma og fjárfesta hér í kræklingaræktinni sem atvinnugrein. Ekki hafa allir hjallar verið yfirstignir en margt hefur lærst á löngum tíma og það þarf að gera frekari rannsóknir á ræktunarsvæðum, vöktunarmálum o.fl.

Umsóknir um rannsóknarstyrki í samkeppnissjóði virðast ekki hafa hlotið náð fyrir augum rýninefnda þannig að það er ljóst að það þarf að efla rannsóknir við atvinnugreinina. Ég spyr því hæstv. ráðherra:

1. Hver er staða umhverfisvöktunar vegna kræklingaræktar? Þá er ég að horfa á hitastig, fóður, þörungablóma o.fl.

2. Hefur ráðherra áform um að stuðla að eflingu kræklingaræktar?