136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

efling kræklingaræktar.

380. mál
[15:07]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl):

Herra forseti. Ég fagna því sem fram kemur í máli hæstv. sjávarútvegsráðherra um styrki til þessarar greinar. Mig langar að vekja athygli á því til gamans að þann 20. mars — nú er 18. — árið 2002 lagði ég nákvæmlega sömu fyrirspurnir fyrir þáverandi sjávarútvegsráðherra. (Gripið fram í: Sömu svör?) Nei, það voru ekki eins mikil fyrirheit í þeim svörum og eru gefin núna þannig að ég fagna því. Það hefur komið fram að það er alveg gríðarleg neysla á þessari vöru í Evrópu, í hundruðum þúsunda tonna, a.m.k. milljón tonn held ég að ég megi segja, og ég efast um að Íslendingar selji meira en nokkrar skeljar á þennan markað. (Forseti hringir.) Við verðum að taka okkur taki í þessari nýju og mjög góðu grein sem (Forseti hringir.) við hefðum átt að gera mun fyrr og var bent á í þinginu fyrir 10 árum.