136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

efling kræklingaræktar.

380. mál
[15:12]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu um kræklingaræktina. Ég held að ég geti sagt að alla mína tíð sem þingmaður, sem er að verða 10 ár, hef ég dáðst að baráttu þeirra norðanmanna í Hrísey, perlu Eyjafjarðar, forsvarsmanna Norðurskeljar og halla ekki á neinn þótt ég nefni Víði Björnsson. Ég hef dáðst að þrautseigju þeirra við þetta, við það að ganga á milli Pontíusar og Pílatusar í kerfinu — fram að þessu.

Það hefur verið aðdáunarvert hvað þeir hafa dugað vel í því, en það má líka gagnrýna hve illa var tekið undir með þeim framan af þó að það gangi sem betur fer betur loksins núna.

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af því sem við áttum auðvitað að vera komin miklu lengra með, ný atvinnugrein, gjaldeyrisskapandi atvinnugrein, og ekki veitir af. Ég fagna umræðunni sem hér hefur farið fram og því hvernig tekið er á þessu máli núna á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að efla þessa starfsemi. Það er það sem við þurfum einmitt (Forseti hringir.) að gera og þetta er einn af þessum jákvæðu vaxtarbroddum, skulum við segja, sem við erum að sjá í þjóðfélaginu.