136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

efling kræklingaræktar.

380. mál
[15:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta. Ég held að það hafi komið ágætlega fram í umræðunni hver staða málsins er. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa lagt orð í belg, þar á meðal formanni sjávarútvegsnefndar sem hefur upplýst hvernig sjávarútvegsnefnd hefur beitt sér í málinu frá stjórnarskiptum. (ArnbS: Frá því fyrir stjórnarskiptin.) Já, já, örugglega líka þar, mér finnst ekki aðalatriðið að menn merki sér hluti. Þeim er það mjög tamt í munni, þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að menn eigi að halda áfram því góða starfi sem þeir unnu og ég get fúslega sagt það að að því marki sem að þessu var unnið í tíð fyrri ríkisstjórnar er það gott og ég mun halda því áfram. Því miður er starfið ekki allt jafngott annars staðar, ég geri ekki ráð fyrir að menn séu að leggja til að við höldum áfram því góða starfi sem Sjálfstæðisflokkurinn vann á sviði efnahags- og bankamála svo eitthvað sé nefnt. (Gripið fram í.)

Það er enginn vafi á því að á sviði skelfisks eru miklir möguleikar og ég vil leyfa mér að nefna hér, þótt það sé annað mál, annað mikið þróunarstarf sem hefur kostað blóð, svita og tár, það að veiða kúfisk og markaðssetja hann. Heimamenn á Þórshöfn hafa þurft að kosta nánast að öllu leyti allt þróunar- og rannsóknastarf. Það er umhugsunarefni að það verði hlutskipti sumra nýsköpunaratvinnugreina að þurfa í miklu ríkara mæli að kosta grunnrannsóknir sínar sjálfar en á við um ýmsar aðrar greinar. Það er umhugsunarefni fyrir okkur að þannig skuli þessu vera fyrir komið, því miður, en sá er veruleikinn. Hvað varðar gæðaprófanir, mengunarmælingar o.fl. hafa menn í slíkum tilvikum oft þurft að bera þar kostnað sjálfir sem aðrar greinar atvinnulífsins eða jafnvel sjávarútvegsins fá að mestu leyti í gegnum hinar almennu rannsóknir sem kostaðar eru að uppistöðu til af ríkinu.

Þarna eru auðvitað þröskuldar og erfiðleikar. Einn af þeim er fjárbindingin í framleiðslu af því tagi þar sem ferlið er nokkuð langt. Þá kem ég enn að einu áhugamáli mínu sem eru vextirnir. Það mundi t.d. fátt koma nýsköpunarstarfi og þróun af þessu tagi betur en að fjármagnskostnaður lækkaði. Það er mikil fjárbinding í því að kaupa búnað og setja hann niður og bíða síðan eftir því að (Forseti hringir.) skelin vaxi. Það mundi örva svona starfsemi mjög ef jákvæð þróun yrði á því sviði.