136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

framkvæmd samgönguáætlunar.

382. mál
[15:21]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hefur beint til mín þessari spurningu: „Hvaða sjónarmið búa að baki þeirri ákvörðun ráðherra að veita einungis tæplega helmingi ráðstöfunarfjár til nýrra samgönguframkvæmda á þessu ári til verkefna í landsbyggðarkjördæmum?“

Ekki er hægt að gefa fullnægjandi svar fyrr en við sjáum betur niðurstöður útboða. En þetta er ekki eins og hér er talað um. Hvert hlutfallið verður kemur í ljós þegar tilboð hafa verið opnuð og útboð hafa öll farið fram og hvort við sjáum þá góðan meiri hluta í þessu, raunverulegan helming, tvo þriðju eða eitthvað annað. Það á eftir að koma í ljós og kemur ekki í ljós, virðulegi forseti, fyrr en útboðin hafa öll verið könnuð.

Þá er það líka spurning um hvað eigi að taka til höfuðborgarsvæðisins. Hin hefðbundna skýring, sem hefur verið hingað til, er að það séu Reykjavíkurkjördæmin bæði og Suðvesturkjördæmið. Við getum spurt okkur að því hvort framkvæmdir, eins og t.d. við Suðurlandsveg eða Vesturlandsveg, hér í næsta nágrenni teljist ekki til höfuðborgarsvæðisins. Þá kemur aftur upp spurning um hvaða hlutfall kemur út úr því.

En líka er rétt að hafa í huga, virðulegi forseti, að á árinu 2009 verðum við með töluvert mikið af uppgjörum við þau verk sem hafa verið í gangi, þau verk sem tekin voru fram fyrir og sett í flýtiframkvæmdir af fyrrverandi ríkisstjórn 10. júlí 2007, ef ég man rétt, vegna skertra aflaheimilda í þorskveiðum á árinu. Þess vegna, virðulegi forseti, hafa jafnmiklar framkvæmdir verið á landsbyggðinni og raun ber vitni.

Líka er rétt að hafa í huga, virðulegi forseti, að einn þáttur kemur auðvitað inn í þetta líka sem er það að aðeins — þótt það séu kannski umferðarmestu æðarnar — 3,5% af lengd þessara vega, þ.e. stofn- og tengivega, eru á hinu hefðbundna og skilgreinda höfuðborgarsvæði.

En ansi margar framkvæmdir hafa verið í undirbúningi og eru að fara í framkvæmd á höfuðborgarsvæðinu og dettur mér helst í hug hringvegurinn í Mosfellsbæ, Álftanesvegur sem er í útboði, Arnarnesvegur og hringvegur milli Bæjarháls og Vesturlandsvegar, en gert er ráð fyrir tvöföldun þar.

Auk þess verða á höfuðborgarsvæðinu boðin út mörg smærri verk, sem unnið hefur verið að að setja í gang, sem eru eingöngu og kannski fyrst og fremst til að bæta umferðarflæði á svæðinu auk þess sem sum þeirra hafa það að markmiði að greiða sérstaklega fyrir almenningssamgöngum.

Virðulegi forseti. Þess vegna ítreka ég enn og aftur og spyr hvernig skilgreina eigi höfuðborgarsvæðið til að ekki sé sífelld togstreita á milli höfuðborgarbúa og landsbyggðarbúa um hvað sé verið að gera. En ég ítreka það sem ég sagði áðan um hver niðurstaðan verður. Ég er alveg sannfærður um að það verður töluvert meira en helmingur.

Útboð standa yfir á Vopnafjarðarheiði og svokallaður Raufarhafnarleggur verður auglýstur í næstu viku sem og Bræðratunguvegur með nýrri brú yfir Hvítá. Tilboð hafa verið opnuð í fyrsta kafla á Vestfjarðavegi og þar á líka að bjóða út framkvæmdir á Haffjarðará og ég minni á framkvæmdir við Landeyjahöfn.

Auk þess vil ég geta þess, virðulegi forseti, að nánast allar framkvæmdir siglingamála eru í landsbyggðarkjördæmunum þremur og eina stóra framkvæmdin í flugmálum að svo stöddu, lenging Akureyrarflugvallar, er í landsbyggðarkjördæmi. Vonandi stendur það til bóta með byggingu samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll.

Í öðru lagi spurði hv. þingmaður: „Hvernig hyggst ráðherra tryggja það að markmið gildandi samgönguáætlunar komi til framkvæmda í ljósi fyrrgreindrar ákvörðunar?“

Þá vísa ég í svar við fyrri spurningunni, fjármálaástandið leiddi til mikils niðurskurðar á fé til samgöngumála og eins og kunnugt er getur samgönguráðherra ekki tryggt að unnt verði að standa við öll fyrirhuguð markmið samgönguáætlunar árið 2009. Ég hef áður sagt að ekki verður hætt við neitt heldur frestast ýmislegt af sjálfu sér, eins og t.d. vegna skipulagsmála þar sem við höfum ekki leyfi til að fara af stað, jafnvel þó að peningar væru til.

Frú forseti. Ekki hefur að öllu leyti verið ákveðið hvaða vegagerðarverkefni verður unnt að bjóða út árið 2009. Heildarfjárveiting til vegamála liggur fyrir á fjárlögum en þróun verðlags hefur haft töluverð áhrif á þau verk sem þegar eru í gangi og þar með á það rými sem verður til nýrra verkefna. Þá munu niðurstöðutölur úr útboðum ársins einnig hafa áhrif á það hvaða fjármagn verður til ráðstöfunar, eins og ég gat um áðan. Þannig að eiginlega má segja, (Forseti hringir.) og ég tek undir það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan, að auðvitað er til mikilla bóta fyrir vegaframkvæmdir á landinu (Forseti hringir.) að vextir fari að lækka, sem maður vonar að verði ekki seinna en í þessari viku.