136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

samningur um siglingar yfir Breiðafjörð.

387. mál
[15:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Herdís Þórðardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra út í ferjusiglingar yfir Breiðafjörð. Fyrir stuttu, þ.e. í lok janúar sl., barst þingmönnum Norðvesturkjördæmis og samgöngunefnd Alþingis ályktun frá bæjarráði Vesturbyggðar þar sem því er harðlega mótmælt að áform séu uppi um að leggja af ferjusiglingar milli Stykkishólms og Brjánslækjar vegna niðurskurðar á ríkisútgjöldum. Samkvæmt upplýsingum frá Sæferðum ehf. varðandi siglingar ferjunnar Baldurs yfir Breiðafjörð telur Vegagerðin að hún geti ekki gengið til samninga við Sæferðir um framlengingu á samningum milli þessara aðila.

Frá árinu 2001 hefur ríkissjóður styrkt ferðir Baldurs með sérstökum samningi við rekstraraðila ferjunnar. Þegar samningurinn var framlengdur árið 2005 var gert ráð fyrir að stuðningi ríkisins mundi ljúka í lok árs 2009 en samkvæmt samningnum var dregið úr stuðningi í fyrrasumar og forsendurnar voru stiglækkandi stuðningur við ferjusiglingar. Samningurinn var sá að vegabætur hefðu orðið á sunnanverðum Vestfjörðum en tafir hafa orðið á þeim úrbótum og eins og við vitum hefur það oft komið fram í umræðunni á Alþingi.

Hinn 24. febrúar sl. voru opnuð tilboð í endurgerð á tæplega 16 km kafla á Vestfjarðavegi frá Þverá í Kjálkafirði að slitlagsenda við Þingmannaá í Vatnsfirði en því verki á að vera að fullu lokið 30. nóvember 2010. Það er því fyrirsjáanlegt að vegaframkvæmdum á þessari leið verður ekki lokið þegar samningnum við Sæferðir lýkur um næstu áramót.

Samkvæmt því bréfi sem þingmönnum barst kemur fram, ef ég má vitna, með leyfi forseta, í það bréf:

„Mikil hætta er á að ferjunni verði fundin önnur verkefni ef ekki næst að endurnýja samninginn við Vegagerðina. Bæjarráð Vesturbyggðar fer fram á að framlengdur verði samningur milli Vegagerðarinnar og Sæferða ehf. um ferjusiglingar yfir Breiðafjörð og að fjöldi ferða verði færður til þess fyrirkomulags sem var við lýði á árinu 2007.“

Það yrði afturför ef siglingar legðust af nú þegar þörf er á að efla ferðaþjónustuna í landinu. Siglingar ferjunnar Baldurs eru gríðarlega mikilvægar fyrir íbúa og ekki síður fyrirtæki á þessu svæði og þá sérstaklega fyrir sjávarútvegsfyrirtæki sem þurfa nauðsynlega að koma afurðum sínum á markað Skiptir þá oft sköpum að koma afurðum sjóleiðina en ferjan hefur tryggt heilsárssamgöngur við sunnanverða Vestfirði undanfarin ár.

Því spyr ég hæstv. samgönguráðherra hvort ekki sé þörf á að ganga til endurnýjunar á samningnum við Sæferðir ehf. og hver afstaða hans sé í þessu máli. Þá lít ég líka til ferðaþjónustunnar í landinu því að íbúar á þessu svæði vilja fá svör, og það skýr svör. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) þessarar spurningar:

Telur ráðherra koma til greina að endurnýja samning Vegagerðarinnar og Sæferða ehf. um siglingar yfir Breiðafjörð þegar núgildandi samningur rennur út um næstu áramót?